Guðaveigar

Ég fór í bíó og sá nýja íslenska mynd sem mér skilst að sé í sama anda og Síðasta veiðiferðin sem ég sá aldrei. Hún er um fjóra drykkfellda presta sem eru gerðir út af örkinni til að finna messuvín sem er bæði óáfengt og vegan.

Þeir taka hlutverk sitt ekki sérlega hátíðlega heldur stefna ótrauðir á mikla drykkju í nokkra daga í góðu rauðvínshéraði og ætla svo að landa á lokametrunum einhverju sem biskupnum líki. Auðvitað fer ýmislegt úrskeiðis og er flest bráðfyndið.

Ég hef lengi haft mikið dálæti á Þresti Leó Gunnarssyni og hann bregst mér ekki. Fáir sækja messur prestsins sem hann leikur og hann er svolítið að missa trúna á sjálfan sig. Þá kemur presturinn sem Sveppi leikur meistaralega og dregur hann að landi.

Halldór Gylfason er frábær í sínu egóistahlutverki og Hilmir Snær alltaf traustur en voða mikið alltaf eins. Kannski var hans rulla líka klisjukenndust, maðurinn sem veit allt um rauðvín að eigin mati sem er síðan rekinn oftar á gat en samferðafólkið hefur áhuga á.

En stjarnan er Vivian Ólafsdóttir sem ég var að sjá í fyrsta skipti og ekki spillti Siggi Sigurjóns sem afi hennar. Hann var sko ekki eins og hann er alltaf!

Mér finnst Guðaveigar mynd sem maður á að sjá í bíó og leyfa sér að flissa að vitleysunni.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband