Sunnudagur, 5. janúar 2025
Að hjóla í manninn
Ég þykist vita að Andrési, Gísla Frey og Stefáni Einari væri alveg sama þótt ég drullaði yfir þá en ég ætla ekki að gera það. Ég get alveg verið ósammála þeim án þess að kalla þá hálfvita, á spena auðmanna eða geltandi hunda (nei, þetta er ekki orðalag frá þeim), en ég skil ekki af hverju menn með alla þessa áheyrn láta ekki bara eftir sér að vera kurteisir og málefnalegir. En þótt þeir misbjóði stundum vitsmunum mínum mun ég halda áfram að hlusta á pólitísk hlaðvörp þannig að auglýsendum er óhætt að halda áfram að versla við þá, bara ekki víst að ég versli við þá auglýsendur. En þá er á hitt að líta að við látum öll glepjast annað veifið og kannski enda ég með bílinn minn á þvottastöðinni þeirra.
Ég hlustaði á þennan þátt á göngu þannig að ég sat ekki með blað og penna eða tölvu í fanginu og punktaði hjá mér. Ég man að þeir flissuðu að því að enginn læknir hefði gert stóra og góða hluti sem heilbrigðisráðherra, og hafa þá í leiðinni enga trú á Ölmu Möller, en ég man ekki betur en að það hafi komið fram um daginn að læknir hafi aldrei fyrr gegnt stöðu heilbrigðisráðherra.
Þeir virðast ekki láta sér nein tækifæri úr greipum ganga til að gera grín að Ingu Sæland en þótt hún sé með munninn fyrir neðan nefið og svari hátt og snjallt fyrir sig ætti að vera um auðugan garð að gresja hjá þríeykinu í hlaðvarpinu að gagnrýna hana fyrir skatta- og skerðingarlausar 450.000 krónurnar.
Ásthildur Lóa fær á baukinn fyrir að vera kennari og það kennari sem hafi verið bara tvö ár og mest sex ár hjá hverjum vinnuveitanda. Og þeir höfðu miklar efasemdir um að KENNARI gæti látið til sín taka í menntamálaráðuneytinu.
En ég gat ekki betur heyrt en að þeim fyndist fyrirtak að fá 26 ára stúdent með reynslu af auglýsingaskrifum sem aðstoðarmann dómsráðherra. Já, hann er líka með hlaðvarp.
Þessi ítarlegu hlaðvörp eru svo ný af nálinni, alltént í mínum síma, að ég veit ekki hvort þessir sömu menn gagnrýndu eða hefðu gagnrýnt það útspil að gera dýralækni að fjármálaráðherra, húsasmið að samgönguráðherra, búfræðing að barnamálaráðherra, námsráðgjafa að matvælaráðherra og mannfræðing að fjármálaráðherra. Þegar til stykkisins kemur skiptir pólitísk sýn máli, samvinna og heilindi og þekking á málaflokknum getur varla skaðað.
Ég hlustaði á þennan hlaðvarpsþátt til enda en ég gafst upp á öðrum þætti þar sem Marta Smartland fór háðulegum orðum um fótabúnað fólks og annað hjóm. Verðmætamatið hjá henni er af þeim toga að ég gat virkilega ekki lagt á mig að hlusta á þann þátt nema kannski hálfan. Ekki víst að sponsorar græði mikið á mér þar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning