Miðvikudagur, 15. janúar 2025
Verbúðin/Vigdís
Elsku Vesturport, því miður nær þáttaröðin um Vigdísi ekki sömu hæðum og gæðum og þáttaröðin um kvótakerfið gerði. Mig grunar að það sé af því að við sem erum eldri en tvævetur munum forseta Íslands 1980-1996 og höfum á henni skoðun. Vigdís Finnbogadóttir skipar þvílíkan sess í mínum huga að ég tárast við tilhugsunina um allt sem hún áorkaði og allt sem hún gekk í gegnum.
Ég var mjög spennt að sjá þættina og sussaði á alla í kringum mig, ég yrði að horfa á þættina í línulegri dagskrá. Fyrsti þátturinn var fínn en dálítið hægur. Annar þátturinn var mjög hægur og ég fór að halda að handritshöfundar teldu sig ekki hafa nóg efni í fjóra þætti. Nú er þriðji þátturinn búinn og sama merki brenndur og sá sem fór á undan.
Enginn nema Mannlíf og DV virðist vera að tala um þessa þætti. Ég man ekki eftir að spyrja neinn um þá og enginn spyr mig. Tala ég þó við ýmsa. Ég sé ekkert á netinu og mér er skapi næst að halda að þáttaröðin um elsku Vigdísi sé fallstykki.
Eftir fyrsta þáttinn, sem mér fannst sýnu bestur, fór ég að hugsa hvort ekki væri vert að gera þátt eða þætti um Kristbjörgu Kjeld sem er líka kraftmikil og spræk sómakona, verður níræð næsta sumar en átti m.a. stórleik í síðasta áramótaskaupi. En kannski væri einn leikinn þáttur nóg.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning