Fimmtudagur, 13. febrúar 2025
Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni
Ég samgleðst öllum sem lifa af hremmingar, hvort sem eru óvænt veikindi, slys eða ofbeldi. Ég samgleðst öllum sem ná árangri, hvort sem er í vinnu, námi eða öðru einkalífi. Ég samgleðst öllum sem eiga góðar stundir með fjölskyldu, vinum eða samstarfsfólki.
Mér finnst bara mjög auðvelt að gleðjast yfir því sem vel gengur, hvort sem er hjá sjálfri mér eða öðrum, og finna til með fólki sem líður illa eða þjáist, hvort sem er andlega eða líkamlega.
En mér finnst alltaf fráleitt að stilla því upp að flugvöllur í Vatnsmýri bjargi lífum og flugvöllur úr Vatnsmýri grandi lífum. Ég ætla ekki að tengja í frétt af því af því að þetta er of persónulegt fyrir viðkomandi. Auðvitað hafa líf bjargast vegna þess að það fólk sem hefur verið í lífshættu kemst undir læknishendur. En þurfa þessar læknishendur að vera við Hringbrautina?
Er ekki hátæknisjúkrahús í Keflavík? Veikist fólk ekki á Ísafirði? Verða ekki slys í Neskaupstað? Af hverju er ekki betri aðstaða víðar um land? Mega Reykvíkingar sem búa í aðflugslínu flugvélanna ekki allt eins krefjast þess að friðhelgi þeirra heimila verði virt?
Ég hef ekki heyrt það núna í dágóðan tíma en það flaug fyrir fyrir nokkrum árum að fólk í Vesturbænum vildi geta flogið norður á Akureyri með morgunvélinni og til baka með síðdegisvélinni og helst án þess að skipta úr inniskónum. Ef við erum að tala um aðgengi mætti þá spyrja hvort fólk í Andrésbrunni ætti ekki að geta gengið á inniskónum út í flugvél sem flytti það milli landshluta. Væri ekki líka næs fyrir landsbyggðarfólkið - sem alltaf er talað um eins og því finnist það engan rétt eiga - að geta flogið að norðan, lent í Keflavík og gengið beint í flugvél sem flytur það til útlanda?
Mér finnst vanta alla ró í umræðuna og ég hef enn ekki séð neina þarfagreiningu. Getur einhver hér t.d. sagt mér hver borgar megnið af innanlandsfluginu? Eru það farþegarnir sjálfir eða eru það skattgreiðendur?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning