Ég trúi kennurum

Ég er lærður íslenskukennari og var kennari í nokkur ár, hætti fyrir rúmum 20 árum. Ég forðaði mér úr stéttinni fyrir rúmum 20 árum af því að ég var aldrei búin í vinnunni. Ég var alltaf að lesa námsefnið, pæla í innlögn, skoða vettvang, semja verkefni eða fara yfir verkefni, sem sagt þegar hinni eiginlegu kennslu sleppti. Ég hefði viljað vera meira í stofunni með nemendum og minna í að fara yfir stafsetningarstíla. Sumir samkennarar mínir hefðu viljað skipta við mig en kerfið bauð ekki upp á þess háttar lúxus.

Ég man ekki launin sérstaklega en ég man kvöld, helgar og meint páskafrí. Ég man samviskubit. En ég man líka skemmtilega nemendur sem náðu árangri, nemendur sem mættu sjálfviljugir í tíma, voru spurulir, áhugasamir og skapandi. Það var bara ekki nóg þegar ég var sífellt hlaupandi. Sérstaklega átti það auðvitað við um fyrsta árið mitt, árið sem ég var úti á landi, árið sem ég kenndi 34 tíma á viku, árið sem ég var með svo stóra bekki að ég þurfti bíósalinn fyrir hópinn, árið sem ég þurfti að leggja mig yfir borð nemendanna yst í röðinni til að ná til nemendanna innar í röðinni.

Ég er samviskusöm og var áhugasöm. Auðvitað eru til kennarar sem undirbúa sig bara í eitt skipti fyrir öll. Í öllum stéttum eru slóðar en við getum ekki ákvarðað laun og önnur kjör út frá þeim einstaklingum.

Þegar ég heyrði í fréttum áðan að ríki og sveitarfélög hefðu ekki viljað samþykkja innanhússtillögu ríkissáttasemjara - sem kennarar höfðu samþykkt - varð ég ekki hissa. Stéttin er mannmörg og kostnaður við að borga mörgu fólki sómasamleg laun er mikill. Þess vegna þurfa samninganefndirnar að vera skapandi í hugsun. Ég geri að tillögu minni að skólaárið verði lengt, sérhver vinnuvika kennara verði stytt og annað það gert sem þarf til að þessi stétt sitji við sama borð og aðrar vinnandi stéttir. En eins og aðrar vinnandi stéttir þurfa þá kennarar líka að geta farið í stuttar borgarferðir eða vikulöng skíðafrí á miðjum vetri. Kennarar ættu ekki að þurfa að taka öll sín frí á dýrasta tíma.

Svo gætum við tekið fyrir vinnutíma þingmanna.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband