Sunnudagur, 2. mars 2025
Nanna gagnrýnir RÚV á Vísi
Ég horfði á fyrsta matarsöguþáttinn á RÚV fyrir mánuði og mér fannst hann svo ótrúlega lélegur og óspennandi að ég hafði orð á því í spjalli við nokkrar vinkonur. Þær höfðu ekki horft nema ein sem var sammála mér þannig að ég vissi ekkert um almenna skoðun og veit svo sem ekki enn, en nú tjáir sig einn viðmælandi úr þáttunum.
Helsti matargúrú samtímans býsnast yfir notkun myndefnis í þáttunum. Ég tók mjög eindregna ákvörðun um að horfa ekki á fleiri af þessum tilgerðarlegu og uppskrúfuðu þáttum þannig að ég vissi ekki hvort þetta hefði haldið áfram en mig grunar það eftir lestur þessarar skoðunar Nönnu.
Nú væri freistandi að nota ferðina og tala um lélega dagskrá RÚV en ég læt duga að segja:
- Fækkaðu endurtekningunum, Stefán.
- Hættu að láta kynninn (af spólum) kynna efni ofan í efnið, Stefán.
- En takk fyrir handboltann í janúar, Stefán.
Ég er ekki áskrifandi að Stöð 2 en ef ég þyrfti að velja á milli fréttatíma Stöðvar 2, sem er í opinni dagskrá, og RÚV myndi ég velja Stöð 2. Það eru margir fínir fréttamenn á RÚV en stundum vantar bara aðeins of mikið upp á (frásagnar)gleðina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning