Fimmtudagur, 27. mars 2025
Ekki hægt að koma í orð
Það er svo margt sem er svo sjálfsagt að manni finnst óþarft að hafa orð á því. Hvernig finnst verkalýðsleiðtoga eðlilegt að hætta í starfi og fara út með tugi milljóna? Af hverju hótar útgerðin að hætta landvinnslu á Íslandi ef henni verður gert að greiða skatta og gjöld eins og aðrar atvinnugreinar gera? Umræðan um það mál hefur verið hávær í áratugi og ég hef hugsað þetta síðan ég var í Leiðsöguskólanum 2000-2001, hafði ekki áttað mig fyrr. Ég borga skatta og tek glöð þátt í samneyslunni. Gerir þú það ekki líka? Af hverju þá ekki fyrirtækin sem fengu ómælt fé að gjöf við frjálsa framsalið upp úr 1990? Einhverjir gamlir kvótahafar seldu sig út úr greininni, seldu gjafagerning, en fyrirtækin sem greiða sér milljarða í arð eftir að öll gjöld hafa verið greidd, búið að fjárfesta í skipum og veiðarfærum, húsum og flæðilínum, ættu að sjá sóma sinn í að borga til samfélagsins. Gerir Kári Stefánsson það ekki með glöðu geði?
Nei, þetta er allt svo sjálfsagt að það er ekki hægt að koma því í orð. Kenning mín er að erfiðast sé að rökstyðja það sem blasir við. Þegar niðurstaðan er ekki eins ljós fer maður meira ofan í saumana á öllum hlutum.
Í Bítinu spjölluðu tveir þingmenn um hið lífseiga vandamál.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning