Laugardagur, 26. apríl 2025
Spónn í aski
Þegar menn hafa miklu að tapa leggja þeir mikið undir til að halda fengnum hlut. Þannig líður mér gagnvart hinum yfirþyrmandi auglýsingum SFS sem ég heyri engan hrósa. Ég bý ekki í sama bergmálshelli og framkvæmdastjóri SFS.
Ég undra mig á þessu fólki sem hefur fengist til að leika í þessum ósmekklegu auglýsingum.
Ég undra mig á þeim peningum sem útgerðin hefur augljóslega aflögu til að reka áróðursherferð sem gerir lítið úr henni sjálfri og misbýður vitsmunum allra í mínum bergmálshelli. Stórútgerðirnar hafa fjárfest í óskyldum rekstri. Þær mega vel greiða út arð vegna þess að hann rennur til ýmissa, trúi ég, en að skæla, væla og grenja á öxlunum á venjulegu launafólki er svo ósmekklegt að þeim verður bara að mæta af fullri hörku, en málefnalega eins og verið er að gera.
Ég er annnarrar kynslóðar Reykvíkingur og bjó bara einu sinni einn vetrarpart á Dalvík. Ég vann í fiski á Kirkjusandi sem unglingur. Þessi atvinnuvegur, ris hans og hnignun, snertir ekki mitt daglega líf, en ég TRÚI þeim sjávarþorpurum sem segjast muna þegar byggðir voru blómlegar ÁÐUR EN stórútgerðirnar seldu og keyptu kvóta og fóru með milli byggðarlaga og voru þá EKKI RASSGAT að tala um þorpin sem legðust í eyði ef gjöld yrðu hækkuð.
Stórútgerðin verður að fara að hugsa um sanngirni, réttlæti, samfélagið og - sjálfrar sín vegna - álitið sem hún kallar yfir sig með þessum vaðandi dónaskap gagnvart vitsmunum og réttlætiskennd fólks.
Pálmi Gestsson sendir auglýsingapésunum snyrtilega pillu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning