Föstudagur, 9. maí 2025
Velgjan sem kólnar
Ég væri ekki hissa - og er ekki hissa á mælingu - á að landsmenn tækju fagnandi þeirri breytingu að láta þá sem hafa hagnýtt sameiginlega auðlind borga fyrir afnotin. Ég er svo forfallin að ég er búin að fylgjast með umræðu á Alþingi um frumvarp um veiðigjaldið og þau sem tala um að landsbyggðin leggist af ef stórútgerðinni verði gert að borga eðlilegt gjald og muni þá flæmast með landvinnsluna úr landi virðast ekki vita að mestu stórbokkarnir hagræða fyrst og fremst í eigin þágu og sum landvinnsla er farin. Það hefur ekkert að gera með veiðigjaldið.
Ég er hlynnt hækkun veiðigjalds en mér finnst líka ástæða til að skoða hvort einhverjir angar í ferðaþjónustunni hafa ekki skarað eld að eigin köku síðustu árin og áratugina. Hver á Langjökul?
Straumlínan ætti að vera að auðlindir nýtist landsmönnum í heild, ekki örfáum einstaklingum sem byrja síðan að skæla og LÍÚja þegar þingmenn nenna að taka slaginn.
Ég hef það gott en fullt af fólki nær ekki endum saman þrátt fyrir að vinna fulla vinnu og hafa jafnvel menntað sig til verðmætra starfa fyrir samfélagið.
Það er ekki endingardrjúgt að pissa í skóinn sinn. Það er volgt fyrst en kólnar svo.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning