Alan Bates gegn Tryggingastofnun

Það er hægt að treysta breska dómskerfinu. Ég segi bara sannleikann.

Eitthvað í þá veruna er haft eftir einu fórnarlambi breska Póstsins í þáttaröð sem má sjá í spilara RÚV um þessar mundir. Þáttaröðin, Mr. Bates vs The Post Office, Alan Bates gegn Póstinum, er um svo lygilegt mál að það er eiginlega ekki hægt að trúa því. Um aldamótin innleiddi hin framúrstefnulega stofnun, Pósturinn, tölvukerfi sem átti að leysa af hólmi handrituðu bókhaldsgögnin. Það sem íslenska áhorfandann vantar alveg er tilfinning fyrir mikilvægi starfsins. Ég sé bara starfsfólk sem afgreiðir frímerki og afhendir lífeyrisgreiðslur skv. plani en fólkið sem átti í hlut leit á þetta sem mikilvægt ævistarf. Það sem urmull póstafgreiðslumanna lenti í var að bókhaldið hætti að stemma og póstmeistararnir, sem ráku þá pósthúsin eins og eigin fyrirtæki, sáu skuld birtast hjá sér og tvöfaldast og fjórfaldast og verða að óyfirstíganlegri skuldahrúgu.

Og ég gæti spurt eins og við spyrjum manneskju sem yfirgefur ekki ofbeldismann: Af hverju sættirðu þig við þetta?

Öllu fólkinu, mjög mjög mjög mörgu, var sagt að enginn annar hefði lent í þessu. Öllum var sagt að viðkomandi væri ein/n í þessu. Fólk efaðist um sjálft sig enda gaslýst af þrautþjálfuðu ofbeldisfólki sem átti að keyra tölvukerfið á þennan hátt.

Og nú berast fregnir af því að Tryggingastofnun þurfi að rukka 45.000 manns vegna ofgreidds einhvers. Af hverju sættir fólk sig við þetta? Ég held reyndar að fólk muni ekki gera það vegna þess að fyrsta frétt er að stór hópur hafi lent í þessu.

Ég er ekki komin svo langt að þurfa að eiga við Tryggingastofnun en Skatturinn er mín brekka. Í fyrra fékk ég endurgreidann ofgreiddan tekjuskatt enda er ég lítill verktaki og reikna sjálf út mína staðgreiðslu og sendi skilagreinar. Svo hef ég endurskoðanda sem telur fram og kann betur á þetta. En viti menn, í febrúar fékk ég rukkun frá Skattinum upp á næstum sömu upphæð. Og ég óviss í minni sök borgaði enda er útgáfudagur, gjalddagi og eindagi sami dagurinn og ef ég borga ekki strax leggjast strax 10% ofan á. Ég virðist ekki hafa neitt val, fæ ekki einu sinni sundurliðun. Ég er mjög ósátt við Skattinn en ætla ekki í viðskiptafræði til að skilja þetta. Þegar ég hef sent fyrirspurnir með tölvupósti fæ ég skriflegt svar á svahíli sent frá útstöðvum Vestmannaeyja. 

Tölvukerfin, já, og gervigreindin, eiga að hjálpa okkur en stundum leggja þau stein í götu okkar.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband