Þriðjudagur, 29. júlí 2025
Strandveiðar
Ég held að ég standi með strandveiðisjómönnum.
Ég veit að ég bý í upplýsingaóreiðusamfélagi og get ekki treyst því sem ég les. Ég get bara treyst því sem ég þekki sjálf á eigin skinni. Hins vegar velur maður alltaf eitthvað sem maður heldur að sé rétt.
Einhverra hluta vegna datt ég inn á síðu um strandveiði- og ufsaveiðispjall og hef verið þar eins og fluga á vegg í sumar. Umræðan þar virkar heilbrigð og málefnaleg í aðalatriðum. Hlutaðeigendur ræða veiðiaðferðir og aflamagn. Strandveiðisjómenn veiða á stangir og koma hvergi nærri sjávarbotninum, koma með spriklandi ferskan fisk í land og veitingamenn geta boðið upp á frábæran mat.
Togararnir fara langt út og eru lengi, sum veiðarfærin þeirra skrapa botninn og eyðileggja lífríkið. Fiskurinn fer í lestina og er sjálfsagt ísaður til að halda ferskleikanum eins og hægt er. Veitingamaðurinn fær ekki eins nýja vöru.
Strandveiðisjómenn geta auðvitað ekki veitt nógu mikið fyrir allar fiskætur þannig að togararnir eru alls ekki til óþurftar, en tilfinning mín er sú að eigendur togaranna og kannski eigendur eigendanna (já, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi) sjái ofsjónum yfir smábátunum. Ég man vel eftir LÍÚ og Kristjáni Ragnarssyni sem var alltaf með grátstafinn í kverkunum og þó að ég vissi ekkert í minn haus, enda barn, heyrði ég fólk í kringum mig gera grín að því að ríkasta fólkið skældi mest.
En það sem ég væri til í að vita, úr því að frumvarpið dagaði uppi, hversu marga daga vantaði upp á þessa 48 að smábátasjómenn væru að veiðum. Hvað hefði vantað mörg tonn upp á að klára dagana?
Hvað erum við að tala um mikil verðmæti?
Ég gæti alveg spurt einhvern úr hópnum en mér finnst sérkennilegt að fjölmiðlar grennslist ekki fyrir um svona atriði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning