Laugardagur, 2. ágúst 2025
Hvammsvirkjun
Ég hlustaði á samskiptastjóra Landsvirkjunar í fréttum Sýnar í gærkvöldi. Hún hneykslaðist einhver býsn á því sem hún kallaði rökþrota málflutning framkvæmdastjóra Landverndar. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum og hneykslaðist á samskiptastjóranum fyrir að skilja ekki myndmál.
Svo lét ég loks verða af því að lesa skoðun framkvæmdastjórans sem er þrír fartölvuskjáir af rökum og sannfæringu, en samskiptastjórinn sér bara þetta:
Aðferðin minnir á hvernig heimilisofbeldi er þaggað niður. Ekkert er að, húsbóndinn segir fjölskylduna hamingjusama og sjáist áverkar á konu eða börnum, þá gengu þau óvart á hurð.
Og mér finnst ekkert að þessu! Hins vegar er greinin að öðru leyti öll um staðreyndir og málefni.
Allt fram til gærdagsins hef ég tekið mark á Þóru Arnórsdóttur og trúað henni þegar ólík sjónarmið hafa tekist á. En með ummælum sínum í gær missti hún allan trúverðugleika. Ég tók diplómu í blaða- og fréttamennsku fyrir nokkrum árum og þótt ég hafi ekki unnið við blaðamennsku er ég eldri en tvævetur og hef fylgst ágætlega með í nokkra áratugi. Trúverðugleiki er dýrmætasta eign blaðamanns og ég hefði haldið samskiptastjóra.
Ég hef ekki forsendur til að meta Hvammsvirkjun en ég las héraðsdóminn sem féll fyrr á árinu og sem Hæstiréttur staðfesti. Já, kannski gerðu þingmenn mistök við lagasetningu og það væri þá ekki í fyrsta skipti en ég spyr: Þurfum við Hvammsvirkjun til að knýja heimili eða almenn fyrirtæki, sem sagt ekki bara rafmyntir eins og ég hef heyrt fleygt?
Ég reikna ekki með neinum svörum hér enda er ég alltaf bara að hugsa upphátt á þessum vettvangi og spyr kannski fyrr en síðar einhvern sem ég tel hafa svarið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning