Föstudagur, 22. ágúst 2025
Bíó fyrir hagvöxtinn
Í gærkvöldi fórum við fjórar í Laugarásbíó að sjá Ástina sem eftir er. Okkur langaði að sjá hana af því að okkur leist vel á hana og við erum meðvitaðar um að einhver þurfi að fara í bíó til að menn nenni að framleiða bíómyndir. Í Laugarásbíói eru sýningarnar bara kl. 15:20 og 17:40 og seinni tíminn hentaði okkur ljómandi í þetta skipti þótt mér finnst frekar að maður eigi að sjá bíó í myrkri, a.m.k. ekki í björtu sólskini.
Ég veit ekki hvað verður um hagvöxtinn vegna þess að tilkoma okkar tvöfaldaði áhorfendafjöldann. Þó að miðinn hafi kostað 2.650, sem er alveg slatti, vegur það sinnum 8 lítið þegar framleiðslukostnaðurinn er skoðaður.
En okkur langaði aðallega að sjá hana af því að okkur leist vel á söguþráðinn og leikaravalið. Og leikararnir sviku ekki. Saga Garðarsdóttir var frábær sveitadurgur að framleiða ryðguð listaverk og Sverrir Guðnason á sjónum og með sín misskildu uppeldisráð en systkinin, maður minn, þau voru stórkostleg og samleikur þeirra þriggja einn og sér gerir myndina þess virði að sjá hana. Þau áttu að vera börn Sögu og Sverris (man ekki hvað hún heitir í myndinni og Magga) en eru í raun systkini og börn leikstjórans og voru ábyggilega stundum að spinna þráð. Spuninn þeirra var svo skemmtilegur að ég myndi kaupa mig inn í matarboð fjölskyldunnar.
Haninn Bibbi blíði sló heldur ekki af að ógleymdri tíkinni Pöndu. Svo kom einn sænskur galleríseigandi við sögu sem var skemmtilega leiðinlegur og sjálfhverfur. Loks sat Dóri DNA í símanum fyrir sunnan með skemmtileg komment. Já, engan skugga bar á leikarana en miðað við upptalningu á vef er eins og Ingvar E. Sigurðsson sé í hvað stærsta hlutverkinu. Hann er það ekki en fór vel með sitt eins og hin.
En hver var söguþráðurinn? Saga (sem var oftar kölluð mamma) og Sverrir (Maggi) eru nýskilin en búa áfram í sama plássi sem virðist vera skammt frá Höfn í Hornafirði. Börnin þeirra þrjú, eldri systir og yngri tvíburabræður, eru miklir gárungar en ekkert mikið gerist í myndinni. Þau eru með fuglahræðu sem sýnir okkur hvernig tíminn líður en myndin er borin uppi af svo skemmtilegri myndatöku að mér var alveg sama þótt myndin hefði engan eiginlega söguþráð. Hún var bara augnakonfekt og ég á örugglega oft eftir að flissa við að rifja upp hitt og þetta.
Ég ætla að leggja Ídu Mekkín Hlynsdóttur (17 ára í dag) og tvíburana Þorgils Hlynsson og Grím Hlynsson (12 ára) á minnið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning