Gervigreind - talgreinir

Ég er skráð á tvö stutt námskeið um gervigreind (er það copilot eða bara chatGPT?) af því að ég vil ekki dragast aftur úr.

En á Alþingi hefur talgreinir verið í fullu starfi í sex ár og mér finnst vandræðalega fáir átta sig á því hvað Alþingi var framúrstefnulegt árið 2016 þegar skrifað var undir samning við HR um að þróa tæki sem myndi breyta tali í texta.

Þingmenn virðast þó sjá gildi talgreinis, sbr. umræðu um fundarstjórn forseta Alþingis í dag. Það er samt mjög mikilvægt að allir lesendur átti sig á að talgreinirinn er vél sem hegðar sér ekki af meiri skynsemi en hún er mötuð á. Ef annað málþófslandsmet er í uppsiglingu er kannski spurning um að útvista ræðunum bara strax til talgreinisins.

En mér finnst ekki gott þegar ræðurnar eru birtar svo gott sem óyfirfarnar eins og gæti gerst ef fólk flytur þær, sbr. það sem haft er eftir forseta þingsins:

Forseti vill að hér komi fram að ég var að fá þær upplýsingar að ræðurnar úr talgreininum eru að birtast og verða vonandi allar birtar í dag. Þær eru þá auðvitað óyfirlesnar en það er vaninn hér að að lesa yfir próförk úr talgreini af því að talgreinirinn tekur ekki alltaf rétt eftir. Hér með upplýsist þá að þetta fæst þá líka á prenti í dag en er, eins og áður hefur verið sagt, til í hljóð og mynd.

... til í hljóð og mynd? Hljóð er hljóði í þágufalli.

Jæja, ég er gagnrýnin og vil að fólk vandi sig og það er ekki nóg að lesa yfir próförk vegna þess að villur koma líka úr einmitt hljóðinu.

En ég er spennt fyrir námskeiðsstubbunum mínum um gervigreind og sneisafull af væntingum um miklar framfarir.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband