(Óunnin) yfirvinna

Þegar ég hóf störf hjá opinberri stofnun 2001 var greitt fyrir yfirvinnu skv. stimpilklukku. Verkefnastaðan yfir veturinn var þannig að við gátum eiginlega unnið eins mikla yfirvinnu og við vildum.

Um það bil tveimur árum seinna var ákveðið að taka upp fastar einingar og byggja fjöldann á upplýsingum um unna yfirvinnu árið á undan. Það fólk sem hafði unnið mikla yfirvinnu fékk þá margar einingar en áfram áttum við að stimpla okkur inn. Við áttum hins vegar að stimpla okkur út þegar við fórum í mat og yfirleitt út úr húsi. Við holufylltum þegar við fórum til tannlæknis eða í jarðarfarir, þ.e. leiðréttum stimplunina eftir á, vegna þess að þær fjarvistir voru heimilar og ekki dregið af okkur eða ætlast til að við ynnum af okkur.

Grunnlaunin voru hraksmánarlega lág.

Nú eru auðvitað liðin meira en 20 ár og ég hætt þarna þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvernig staðan er núna, en ég vil segja það að þegar fólk er í vinnu sem það skilur ekki endilega eftir á vinnustaðnum er erfitt að reikna út sanngjörn laun eða áætla raunverulegan vinnutíma.

Ef Viðskiptaráð vill breyta fyrirkomulaginu þarf það líka að hugsa um tímann sem fólk raunverulega ver í vinnuna heima hjá sér vegna þess að úrlausnarefnin leita ekki bara á samviskusamt fólk þegar það situr við skrifborðið sitt í vinnunni.

Að lokum er rétt að nefna að Viðskiptaráð mætti gjarnan senda pistlana sína í prófarkalestur. Það er óvíst að það þurfi að ráða prófarkalesara í fast starf eða tímavinnu. Verktaki af og til gæti dugað og þá fengi viðkomandi bara greitt fyrir unnar vinnustundir.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband