Miðvikudagur, 13. júní 2007
Verður ferðaþjónustan krónísk láglaunastétt?
Mér sýnist Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands, spyrja þeirrar spurningar í Mogganum í dag.
Ég óttast að svarið verði já, en spyr jafnframt: Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir það?
Ferðamenn sem koma til landsins víla ekki fyrir sér, margir alltént, að borga mikið fyrir gæðavöru sem er einstök, náttúru, upplifun, frábæran mat - en eru ekki eins spenntir fyrir drykkjarföngum sem eru kannski flutt inn frá heimalöndum þeirra, lélegri gistingu og ónýtum rútum.
Það þarf að jafnvægisstilla.
Atvinnugreinin ferðaþjónusta
Edward H. Huijbens skrifar um ferðaþjónustu sem iðngrein
Edward H. Huijbens skrifar um ferðaþjónustu sem iðngrein: "Það er fagnaðarefni að nú fari ferðaþjónusta undir ráðuneyti iðnaðar og þá væntanlega ferðamála..."
MEÐ nýrri stjórn og þeim stjórnarsáttmála sem Samfylking og Sjálfstæðisflokkur gerðu í kjölfar nýliðinna kosninga verða málefni ferðaþjónustunnar flutt undir iðnaðarráðuneytið um næstu áramót. Áður höfðu málefni ferðaþjónustu á Íslandi heyrt undir samgönguráðuneytið. Það sem ég les út úr þessari breytingu er að nú loks er ferðaþjónustan viðurkennd sem tegund iðnaðar, atvinnugrein í sjálfu sér, en ekki aðeins "hliðaráhrif" bættra samgangna.Af þessu tilefni er rétt að árétta að hve miklu leyti ferðaþjónusta (e. tourist industry) er í raun mikilsverður "iðnaður" þjónustuhagkerfisins hér á landi. Til þess er rétt að fara yfir nokkrar grunntölur. Gjaldeyristekjur af erlendu ferðafólki voru á síðasta ári 47 milljarðar sem er vel rúm tvöföldun á tíu ára tímabili, en 1997 voru þær um 21 milljarður. Gjaldeyristekjur sem þessar má leggja að jöfnu við útflutning og í því samhengi nema gjaldeyristekjur íslenskrar ferðaþjónustu 20% af heildar vöruútflutningi á Íslandi 2006 (fob-verð). Til samanburðar var ál flutt út að verðmæti 57 milljarðar króna árið 2006. Þess er rétt að geta að ég hef verðmæti þjónustuútflutnings, þ.ám. ferðaþjónustu, ekki inni í tölum um heildarvöruútflutning. Er það með ráðum gert til að sýna að þjónustugrein líkt og ferðaþjónusta er í raun "iðnaður" í hagkerfi þar sem um 75% starfa er í þjónustugreinum. Hins vegar ber að taka tekjutölum í ferðaþjónustu með varúð þar sem þær segja ekki allt. Bjarni Harðarson alþingismaður lýsti um daginn skoðunum sínum að ferðaþjónusta væri ekki af hinu góða og vísaði til reynslu foreldra sinna af Kanaríeyjum, þar sem einu birtingarmyndir ferðaþjónustu eru í lágt launuðum þjónustustörfum. Þannig má ekki fara hér og því verður að gæta þess að þær tekjur sem af greininni hljótast séu að standa undir blómlegu atvinnulífi, þar sem fólk getur skapað arð af hugmyndum sínum. Sjálfur hef ég bent á að ferðaþjónusta geti verið sú fátækragildra sem Bjarni lýsir, en það er aðeins ef ekki er rétt á málum haldið. Það er því fagnaðarefni að nú fari þessi málaflokkur undir ráðuneyti iðnaðar og þá væntanlega ferðamála, allavega er þá pólitískt rétt komið fyrir ferðaþjónustu.
Með pólitískri viðurkenningu greinarinnar er næst að gera gangskör í rannsóknum, til að tryggja að rétt verði á málum haldið með þessa atvinnugrein. Þær atvinnugreinar sem eitthvað að kveður á Íslandi hafa allar sér til fulltingis öflugar rannsóknarstofnanir. Sjávarútvegurinn hefur Hafrannsóknastofnun, Álið og orkan Orkustofnun, ÍSOR og öflugar rannsóknir Landsvirkjunar og ýmissa annarra. Landbúnaðurinn hefur RALA, nú Landbúnaðarháskólann. Iðnaður í landinu hefur Iðntæknistofnun og rannsóknarstofnun byggingariðnaðar. Ferðaþjónustan hefur hins vegar eina opinbera stofnun sem sinnir rannsóknum fyrir greinina, Ferðamálasetur Íslands. Þar eru 6 starfsmenn og opinber framlög nema um 10 milljónum króna. Ekki þarf að taka fram að með þennan mannafla, þó góður sé, og með þennan pening er lítið hægt að gera og ekki hægt að standa undir nauðsynlegum grundvallarrannsóknum á t.a.m. áhrif ferðaþjónustu á hagkerfi, menningu og umhverfi. Hver atvinnugrein þarf öflugt rannsóknarbakland og með pólitískri viðurkenningu ferðaþjónustu sem atvinnugreinar þarf nú að tryggja að hægt sé að standa að öflugum rannsóknum á greininni til að forðast t.d. örlög margra smáríkja með sól, sand og sjó.
Höfundur er forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands.
Athugasemdir
Ferðaþjónusta þarf ekki að vera láglaunastétt. Það hefur loðað við ferðaþjónustu að lág laun séu borguð. Það sem ég held að valdi því að lítið er um fólk sé menntað ferðaþjónustu og nota fyrirtæki sér það til að þurfa ekki að borga laun. Þetta er að breytast, það eru alltaf fleiri og fleiri sem fara í ferðamálanám og með því að auka menntun í greininni þá aukast gæðinn og hægt er að krefjast hærri launa. Svo er það líka við sem erum að klára ferðamála nám að sækjast eftir hærri launum og gefa þar með tóninn í þeirri launaþróun sem þarf að vera í greininni. Ég hef unnið við ferðaþjónustu í 12.ár þar sem ég var að keyra rútur og launinn sem ég hef unnið á hafa verið mjög slæm. Í dag er í að vinna við gestamótöku og ýmislegt annað sem tengist ferðaþjónustu og launinn sem ég er á eru þau bestu sem ég hef haft frá því að ég fór að vinna í þessum geira. Þar er metið inn mín reynsla af ferðamálum og menntun mín í ferðafræðum en ég hef lokið tveimur árum í ferðamálafræði við Háskólan á Hólum. Það sem þarf er að auka menntun í ferðaþjónustu og þá getum við krafist hærri launa sem munu sklila sér í betri ferðaþjónustu út um allt land. Hólaskóli er góður skóli til að læra þessi fræði.
Þórður Ingi Bjarnason, 13.6.2007 kl. 18:09
Mér sýnist þú vera að agitera fyrir Hólaskóla - sölumaður vakinn og sofinn.
Ég sýndi líka enn stífni í dag þegar ég hafnaði vinnu með þeim rökum að taxtinn væri of lágur.
Hvað ferðu fram á? spurði hún þá. Útlenski kúnninn er rukkaður, það vantar ekki.
Það held ég að minnsta kosti.
Berglind Steinsdóttir, 13.6.2007 kl. 18:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.