Í Elliðaárdalnum með hatursmanni Moggabloggsins

Ég held að hatrið á Moggablogginu sé allt í nösunum á Stefáni Pálssyni sem fór fyrir 100 manna hópi áhugasamra um Elliðaárdalinn á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í gærkvöldi. Hvorki Moggann né blogg bar á góma.

Hins vegar sagði hann okkur frá upphafi rafveitunnar 1921 og leyfði okkur að fara inn í stöðvarhúsið, honum dvaldist lengi við asbestómyndina og gladdi okkur, a.m.k. mig, með þeim fréttum að til stæði að rífa Toppstöðina í haust, hann þyrði þó ekki að lofa því fyrr en hann tæki á því. Við litum yfir gróðurmengunina og þá hló ég mest því að ég hef verið óþreytandi við að segja ferðamönnum mínum frá trjám, kostum þeirra hér og þó meira kostum trjáleysis. Tré skyggja á landslagið ... Kristinn garðyrkjustjóri, einnig frá OR, sem fylgdi hópnum með myndavél tók öllum ákúrunum með jafnaðargeði enda veit hann, eins og fleiri, að Stefán Pálsson er grínaktugur maður.

Við stoppuðum ekki við Skötufoss sem er vettvangur glæps enda varð Stefáni að orði í næsta stoppi (erfitt að liðast um dalinn með svona stóran hala, fyrir vikið erfitt að stoppa eins oft og ella) að það morð væri fyrir löngu um garð gengið og morðinginn hefði fundist.

Ég ætla ekki að tíunda fleira úr þessari miklu gleðigöngu en þótt ég hefði heyrt flest áður brosti ég samt hringinn í blíðskaparveðrinu.

Brotabrot af hópstærðinni

 

 Kristinn garðyrkjustjóri taldi um 100 manns og hér smellti ég einni mynd þegar við fórum út úr rafstöðinni sjálfri. Þar inni eru gljáfægðar túrbínur því að þær eru ekki í gangi frá 1. maí og til septemberloka ef ég man rétt. Þess vegna vinna sumarstarfsmenn við að fægja gripina ...

 

 

 

Kolbrún og Habbý Þær heimtuðu að ég tæki mynd af þeim sérstaklega!

Stefán Pálsson

 

 Stefán dró ekki af sér í frásögnunum. Hér stendur hann uppi á Árbæjarstíflunni og lætur móðan mása um ... hana. Ef einhvern vantar hugmynd að afmælisgjöf handa mér gæti ég vel hugsað mér að eignast svona taldós. Svo má hugsa sér gps og nýja gönguskó.

Kristinn garðyrkjustjóri mundar myndavélina og skömmu síðar sagði hann okkur að næsta þriðjudag yrði plöntuganga um dalinn í boði OR.

 

Á vettvangi hamfaraflóðsins 15. desember 1998 Lagnir hafa verið svona og svona fóðraðar í gegnum tíðina. Sumar hafa brostið og í þessu litla gili varð stórkostlegt hamfaraflóð fyrir tæpum 10 árum sem varði í eina fjóra klukkutíma. Mesti skaðinn varð í strætó sem keyrði undir brúna á þeim tíma og vatn flæddi inn í. Annað sem er athyglisvert er að sárið var látið eiga sig í tilraunaskyni til að sjá hvað gróðurinn yrði lengi að taka við sér. Öllum að óvörum hefur hann verið langtum duglegri en menn reiknuðu með. Nú er þetta sjálfsáið sár og stefnir í mikinn vöxt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband