Þriðjudagur, 10. júlí 2007
Af hverju er enginn fiskmarkaður í Reykjavík?
Í tvo daga hef ég unnið á ráðstefnu um hagfræði fiskifræðinnar. Finnsk stúlka sá eitthvað um ráðstefnuna í fjölmiðlum í gær og lagði leið sína á ráðstefnustað til að spyrja hvers vegna ekki væri fiskmarkaður í Reykjavík eins og hún þekkti frá Helsinki. Hún sagðist hafa bara gengið út frá því þegar hún kom að hægt væri að fara niður á bryggju og kaupa nýveiddan fisk á markaði.
Mig setti örlítið hljóða (enda er ég ekki ráðstefnugestur og alls enginn hagfræðingur). Svo sagðist ég halda að það væri kannski vegna veðurs - sem er þó ekki sérlega sannfærandi því að í öðrum norrænum löndum eru fiskmarkaðir - og gott ef ekki var markaður í Hafnarfirði í gamla daga.
Ég bar þetta undir viðstadda hagfræðinga þegar ég náði í þá og þeir höfðu líka orð á veðrinu. Svo er náttúrlega markaðurinn ekki stór enda stutt síðan við urðum tiltölulega þéttbýl. Þá má ekki gleyma fiskbúðunum sem nú eru meira og minna komnar inn í Nóatún og Hagkaup. Og Fiskisaga er með réttina.
Spilar kannski óstöðugt veðrið stóra rullu?
Ég fann mynd af japönskum markaði og hann er undir þaki. Af hverju getum við ekki keypt spriklandi fisk á markaði? Og þá er ég ekki að tala um að elda og éta lifandi fisk eins og ég sá í fréttum í gærkvöldi. Ég er ekki mikil tilfinningavera en sú frétt var bara af meiðandi atburði.
Athugasemdir
Ég held að þetta hafi með það að gera að við erum svo fá og höfum tiltölulega gott aðgengi að fiskverslunum. Meira að segja er ennþá ótrúlegur fjöldi sem hefur aðgang að fiski í gegnum fjölskyldumeðlimi sem eru á sjó. Á stöðum eins og Þorlákshöfn t.d. hefur aldrei verið hægt að reka fiskbúð, allir hafa aðgang að fiski.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 10.7.2007 kl. 22:29
Trúlega er mikið til í þessu með fámennið.
Berglind Steinsdóttir, 10.7.2007 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.