Fimmtudagur, 12. júlí 2007
Lögmálið um framboð og eftirspurn
Í gær lagði Blaðið á forsíðu út af því að samspil milli framboðs og eftirspurnar væri ekkert, þ.e. ógrynni notaðra bíla hefði ekki áhrif á verð þeirra. Það er rangt, það fullyrði ég og ég ætla bráðum að sanna það og kaupa mér bíl til að friða ýmsa í nærumhverfi mínu.
Í fréttum RÚV í kvöld var frétt um ímyndaða tvo ferðamenn sem ætluðu hringinn á Íslandi á bílaleigubíl. Þar var gert ráð fyrir lögmáli framboðs og eftirspurnar. Reyndar var ekki farið út í að tíunda verð á gistingu yfir vetrarmánuðina og sums staðar er gistingin ekki í boði nema um háönnina. Tveggja manna herbergi með baði og morgunverði kostaði 13-20 þúsund kr. Þetta gera gististaðir, flugfélög, afþreyingarfyrirtæki, veitingastaðir - af því að þau nýta sér lögmálið um framboð og eftirspurn - þau hækka verð á þjónustu þegar eftirspurnin eftir henni er mest. Þjónusta er takmörkuð gæði og í takmörkuðum mæli. Ef leiðsögumenn ætla að gera þetta (og bílstjórar) er þakkað pent fyrir og svo kafar ferðaþjónninn eftir systursyni eða föðursystur sem finnst spennandi að fara hringinn án þess að þurfa að borga fyrir það! Nema náttúrlega sætta fleiri en færri leiðsögumenn sig við smánarlaun.
Ég vildi gjarnan að einhver hrekti þetta með rökum.
Miðað við lausamennskuna ætti tímakaup að vera ekki undir 4.000 kr. í verktöku. Góðvinur minn leigði frá sér hljóðkerfi nýlega og rukkaði 50.000 kr. á tímann. Reikningurinn var ógagnsær. Auðséð að fjárfesting í hljóðkerfi er miklu verðmætari en í menntun og þekkingu. Framboð og eftirspurn ...?
Í næstu viku er ég að fara nokkrar dagsferðir fyrir fyrirtæki sem ég hef ekki unnið fyrir áður. Út af leiðarlýsingum, nafnalistum og geiðslubeiðnum þarf ég að mæta á staðinn og sækja gögnin ásamt því að fá frekari skýringar. Vegna annarrar vinnu hef ég átt erfitt með að finna tíma í vikunni til að mæta á staðinn og sækja gögnin - og ferðaþjónustufyrirtækið er frekar pirrað yfir að ég geti ekki komið þegar því hentar - kauplaust.
Eiga leiðsögumenn að taka heilan frídag frá leiðsögn til að mæta kauplaust á einhverja skrifstofu til að fá upplýsingar og gögn? Er eðlilegt að við eigum alltaf að hringja til baka úr gsm-símunum okkar og fá ekki borgað fyrir það?
Það auðvelda fyrir mig væri auðvitað að hætta í leiðsögn, en ég man eftir fjöldamörgum blaðagreinum föður blaðburðarbarns sem barðist fyrir bættum kjörum blaðburðarbarna. Mér finnst það miklu merkilegri aðferð en að láta sig hverfa þegjandi og hljóðalaust.
Áatökin eru kannski smávægileg en ég tek bara eitt skref í einu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.