Fimmtudagur, 19. júlí 2007
Ekki verður á hann Stefán Helga Valsson logið
Nú er hann búinn að taka viðtal við Svanhvíti Axelsdóttur hjá samgönguráðuneytinu og spyrja hana út í erindi okkar um löggildingu starfsheitisins leiðsögumaður ferðamanna. Vegna ráðherraskiptanna liggur beiðnin í salti og verður orðin saltstorkin áður en ferðamálin flytjast yfir til iðnaðarráðherra um næstu áramót. Á meðan halda erlendir fararstjórar áfram að koma hingað og leiða samlanda sína um landið okkar, misvitrir eins og við hin en þakklátir fyrir að fá aur fyrir áhugamálið.
Ég talaði lengi við vinkonu mína í stéttinni í kvöld og hún hefur alloft lent í því upp á síðkastið að keyra með bílstjórum sem bera enga virðingu fyrir bílstjórastarfinu, tala í símann á ferð og senda sms. Af því að hún fer í lengri ferðir en ég hefur hún líka hitt fleiri bílstjóra sem eru útlenskir og tala hvorki íslensku né ensku. Útlenskir ferðamenn sem keyra hér um á bílaleigubílum kunna ekki að keyra í möl og lenda oftar en Íslendingar í vandræðum, útlenskir rútubílstjórar eru heldur ekki vanir malarvegum og þá er mikil hætta á ferð.
Vonandi verður þess laaaaaaaaaaangt að bíða að óvanir bílstjórar lendi í og/eða valdi slysum með aksturslagi sínu.
Þessi pilla á hvorki við um Kjartan né Pétur Gauta.
Ég bara skil ekki hvað bílstjórar sætta sig við smánarlegt kaup. Hangir eitthvað á spýtunni, fá þeir borgaða óunna yfirvinnu, ókeypis flug til Kuala Lumpur einu sinni á öld eða finnst þeim það á við laun að hanga stundum klukkutímum saman meðan hópar eru í löngum göngum til fjalla eða sitja einhvers staðar að sumbli? Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju góðir bílstjórar - því að ég þekki þá marga - tolla í áhættusamri vinnu fyrir 900 kr. á tímann?
Og Magnús Oddsson sagði fyrir viku að á næsta hálfa mánuði tæki ferðaþjónustan inn fjóra milljarða í veltu sína. Ekki verða bílstjórarnir feitir af því.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.