TVP - Top Visual Priority

Ég kvaddi í gær hóp sem ég var með í fjórum stökum dagsferðum í vikunni. Af því að samsetningin breyttist lítillega alla vikuna þótt uppistaðan væri að sönnu sú sama varð leiðsögnin aðeins ruglingslegri en maður kýs. Ég byrjaði með 31 farþega í Borgarfirði á mánudag, var svo með 19 þeirra og tvo nýja í Suðurströnd á miðvikudag, svo 11 af þeim og tvo nýja á föstudag og sömu 13 í Gullhring í gær.

Loks í gær fór að myndast einhvers konar hópstemning sem ég var búin að vera að streðast við að mynda alla vikuna. Ég held að þessi rof, þriðjudagur og fimmtudagur, séu óholl fyrir hópeflið af því að fólkið gistir hingað og þangað og á ekki annað sameiginlegt en að hafa bókað ferðina hjá sama fyrirtæki. Og þótt mér liði eins og þau væru síldar í sendiferðabíl í gær eftir að hafa verið á helmingi of stórum bíl hina dagana voru þau farin að spjalla meira í gær en áður.

Og þá kveður maður, og næstum með söknuði.

Að láta það sem maður sér vísa sér veginn - sem fyrirsögnin vísar í - er nokkuð sem Birna Bjarnleifsdóttir lagði mikla áherslu á í Leiðsöguskóla Íslands og nú er ég að velta fyrir mér hvort ég taki það mögulega of alvarlega. Vissulega tala ég um óáþreifanlega hluti eins og menntakerfi, heilbrigðiskerfi, skatta, meðallaun, útflutning og atvinnuhorfur. En ég nota oft eitthvað úr umhverfinu til að koma mér af stað, t.d. veglegan jeppa sem í situr ein manneskja, krakka á engi á mögulegum skóladegi, Litla-Hraun til að segja frá glæpatíðni. Og jarðfræði og náttúrufar verða stundum fyrirferðarmikil.

Í gær gerði ég þau hlálegu mistök að segja frá jólasveinunum ÖÐRU SINNI. Ég notaði fjallasýn í Borgarfirðinum á mánudaginn sem hvata og í gær þegar áliðið var dags urðu þeir mér aftur hugleiknir í grennd við Búrfell! Ég hnýtti reyndar aftan við alls konar matarvenjum þegar ég áttaði mig á að ég hefði verið búin að segja uppistöðunni í þessum hópi söguna áður.

Ferðamennirnir okkar gera nefnilega þá eðlilegu kröfu að við séum afskaplega vel undirbúin, vel lesin og vel að okkur um allt milli heima og geima, líka í öðrum löndum, vel talandi á tungumálið og allt sem við segjum á samt helst að hljóma eins og við segjum að segja það í fyrsta sinn. Ég vil líka gera þá kröfu. Það er samt erfitt að standa undir henni þegar ágangurinn er svona mikill og þegar leiðsögumenn unna sér helst engrar hvíldar alla vertíðina. Eru þá ekki ferðamenn farnir að nálgast færibandið ískyggilega?

Ein mæt kona spurði mig í gær hvort ég segði öllum að Katla myndi gjósa í næstu viku. Nei, ég hef aldrei sagt neinum að Katla færi að gjósa hvað úr hverju, í síðustu viku var hins vegar gefin út viðvörun þannig að ég sagði þessum hópi að nú skyldu þau fylgjast með þegar þau kæmu heim, kannski myndi Katla - sem þau voru í grennd við - gjósa í næstu viku, ég sæi meira að segja á jarðskjálftavefnum að heilmiklar hræringar væru þar núna.

Það má ekki níðast svo á glaðsinna leiðsögumönnum að þeir fari að hljóma ótrúverðugir. Við megum aldrei eiga vondan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband