Miðvikudagur, 25. júlí 2007
Erindisrekstur dagsins
Lásinn á hjólinu mínu dugði ekki lengi, hann hrökk í sundur og í dag lá leið mín í búðina þar sem ég keypti hann 10. maí sl. Ég rétti hann fram og spurði ísmeygilega: Heldurðu ekki að það geti verið að þessi lás eigi að duga lengur en í tvo mánuði?
Afgreiðslumaðurinn brást hinn besti við, fór með lásinn afsíðis og sannreyndi ónýtileika hans. Þar sem þessi tegund var ekki til bauð hann mér að velja mér dýrari lás. Ég átti það skilið en samt gladdi mig að fá svona lipurlega afgreiðslu.
Fyrir tæpum tveimur árum var mér gefin ógurlega vönduð merano-ullarpeysa sem ég hef nú brúkað ótæpilega. Ég veit ekki hvort það er almennt mikil fýla af mér en þrátt fyrir endalausan þvott í höndunum var um daginn komin svo megn svitalykt í krikana að ég ákvað að flíkin væri mér svo gott sem ónýt þannig að ég gæti prófað að skella henni í vél þótt það sé annars bannað. Ég hélt að hún hlypi kannski spölkorn og þófnaði. En nei, það gerðist ekki, hins vegar eru fjölmörg lítil göt á bakinu eftir þvottinn. Nú veit ég varla hvort ég á að taka málið frekar upp við Matta sem á bæði þvottavélina og íbúðina (gæti þetta verið mölur ... humm hömm .. eða silfurskottur?) eða fara til fundar við Marc O'Polo.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.