Þriðjudagur, 31. júlí 2007
Söfnin í Reykjavík
Ég gerði minniháttar úttekt á söfnunum í Reykjavík í dag. Því miður þarf ég stundum að slá í klárinn og minna mig á að söfnin eru áhugaverð.
Þrjú söfn sem heyra undir Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsið, Kjarvalsstaðir og Ásmundarsafn, eru samtengd í þeim skilningi að ef maður kaupir aðgang að einu þeirra (500 kr.) gildir sá miði á hin söfnin líka og það í heila þrjá daga. Að auki er ókeypis á fimmtudögum.
Í Hafnarhúsi eru núna þrjár sýningar, Roni Horn með ljósmyndir, Erró með sína klassík og svo Daníel Björnsson með innsetningu. Mér sýnist sem þeim muni öllum ljúka í næsta mánuði.
Á Kjarvalsstöðum er hönnunarsýning sem ég ætla að reyna að skoða í vikunni.
Í Ásmundarsafni er yfirlitssýning óhlutbundinna verka Ásmundar og ég náði að berja hana augum þegar ég var þar í brúðkaupsveislu í júní. Ásmundur er í uppáhaldi hjá mér af því að ég á frekar auðvelt með að sjá sögur út úr verkunum hans sem byggja mörg á þjóðsögum og hinum vinnandi stéttum. Þessi óhlutbundnu verk þykja mér ekki eins aðgengileg.
Ef maður ætlar að kynna útlendingum söfnin í Reykjavík er sjálfsagt að benda líka á Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg þar sem er núna sýningin Ó-náttúra. Þar kostar ekkert inn en er lokað á mánudögum. Kannski ég geti litið inn á hana á morgun.
Sögusafnið í Perlunni er líka forvitnilegt en mörgum finnst ábyggilega mikið að borga 1.000 kr. inn. Gervin eru samt svoooo vel gerð að manni bregður óneitanlega stundum ... segi ekki meir.
Fyrir mig er Gerðuberg alltof langt í burtu en mér finnst frábært að það skuli blómstra úr alfaraleið - eða hvað er ég að segja, býr ekki fjöldi manna í Breiðholtinu? Reyndar hefði ég einhvern tímann verið vís með að fara þangað á ritþing en háskólabyggingarnar liggja betur við mér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.