Föstudagur, 3. ágúst 2007
Í ótíðinni las ég bók
Ég er (fyrrverandi) bókabéus en mér hefur lítið orðið úr lestri það sem af er þessu ári. Nú hef ég þó náð að lesa Sendiherrann eftir Braga Ólafsson.
Ég hef sérstakt dálæti á skáldsagnahöfundinum Braga en kann síður að meta ljóðin hans. Þó er hann meiri stemningsmaður en maður mikillar og skýrrar framvindu í söguþræði. Hér kynnumst við Sturlu sem er ljóðskáld og húsvörður. Flestar persónur Braga hafa verið þvílíkir öndvegislúserar í gegnum þykkt og þunnt að það verður að hrósa Braga fyrir að gera persónurnar samt áhugaverðar. Sturla er hins vegar ekki tiltakanlega misheppnaður, þvert á móti hefur honum tekist að koma fimm börnum til manns ásamt því að slá lauslega í gegn í bókmenntaheiminum. Og það var lengst af spennandi að fylgjast með honum missa af ljóðahátíðinni í Litháen.
Ágæt sumarlesning.
Hitt undrar mig að framan af talar Sturla (eða höfundur) um litháensku og skiptir svo yfir í litháísku. Vissulega smáatriði en samt ónákvæmni sem yfirlesari ætti að koma auga á. Og svo sá ég á stöku stað glitta í ensku þótt bókin sé áreiðanlega ekki þýdd!
-skrifaði Berglind um kvöldmatarleytið í stað þess að vera á leiðinni til hinna fyrirheitnu Vestmannaeyja
Athugasemdir
Ég skemmti mér ágætlega yfir sendiherranum en verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir þessu misræmi.
Steingerður Steinarsdóttir, 4.8.2007 kl. 19:59
Jájájá, ég skemmti mér líka vel yfir Sendiherranum. Það er atvinnusjúkdómur að leggja á minnið orð eins og litháensku sem eru á skjön við hið viðtekna þótt mér finnist það ekki rangt. En ertu ekki sammála því að neðangreint sé undarleg röð orða?
Hann er Sturla en skv. málsgreininni er eins og verið sé að tala um annan hann. Þýðandi Dúfunnar eftir Süskind eyðilagði hana næstum fyrir mér með fyrstu línunni sem var einhvern veginn á þessa leið:
Ég fæ hroll ... en er samt mjög líberal þegar menn láta reyna á þanþol tungunnar ... viljandi, ehemm.
Berglind Steinsdóttir, 5.8.2007 kl. 11:07
Fórstu á þjóðhátíð - án mín???
Erla (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 16:11
Elsku Erla, þjóðhátíð væri a.m.k. ekkert án þín og appelsínugula átfittsins okkar.
Berglind Steinsdóttir, 8.8.2007 kl. 19:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.