Mánudagur, 13. ágúst 2007
Lögmálið um framboð og eftirspurn gildir ekki í leiðsögumannastéttinni
Ég veit að þetta er að bera í bakkafullan lækinn en ég verð að segja nýjustu reynslusöguna mína úr leiðsagnarheiminum.
Á föstudaginn hringdi í mig örvæntingarfull kona á ferðaskrifstofu að leita að leiðsögumanni fyrir næsta föstudag. Ég sagðist halda að ég væri laus og spurði hvað hún borgaði. Hún sagðist að bragði borga 17.400 fyrir Gullhring ef ég væri launþegi en 22.000 ef ég væri verktaki. Svo sendi hún mér upplýsingar með tölvupósti. Þá kom á daginn að vinnan átti að vera frá 14 til 24 þannig að ég sagði henni að þetta jafnaðarkaup væri of lágt, hún þyrfti að bjóða mér 22.000 sem launþega eða 30.000 sem verktaka.
Andstutta konan svaraði þá einfaldlega í tölvupósti að þau borguðu bara svona og ég stillti mig um að spyrja hvort hún hefði nokkuð velt fyrir sér af hverju hún þyrfti að hringja milljón símtöl (hennar orðalag) áður en hún fyndi leiðsögumann ...
Ég ítreka að hún vildi borga mér sem verktaka það tímakaup sem Félag leiðsögumanna hefur samið um sem launþegataxta. Því miður eru til leiðsögumenn sem falla í þessa fúlu pytti - en vonandi færri og færri.
Athugasemdir
Það eru mjög margir leiðsögumenn sem vinna sem verktakar og passa ekki upp á að geyma pening fyrir skattgreiðslum... Síðan ef þú ert verktaki þá þarftu að standa skil á ýmsum launatengdum gjöldum einnig, sem eru allt að 35% af upphæðinni.
Ef þið gerið ekki upp skattana jafnóðum bætast einnig vextir ofan á þá.
í fáum orðum þá er mismunurinn á launþega og verktaka um 50%, þegar launþegi tekur 10.000 fyrir ferð þá þarf verktakinn að taka um 15.000 til að fá jafnmikið og launþeginn.
Hallgrímur Egilsson, 14.8.2007 kl. 18:20
Það virðast vera einhver áhöld um það hvað er eðlilegt að leggja mikið ofan á taxtann (sem vel að merkja er ekki hugsaður sem grunnur fyrir verktöku) en ég hallast að því sem þú segir, Hallgrímur. Ég hefði því í raun átt að segja 22.000 sem launþegi eða 33.000 sem verktaki. Ég man það næst og vona að aðrir leiðsögumenn í mínum sporum láti ekki heldur svindla á sér.
Berglind Steinsdóttir, 14.8.2007 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.