Sunnudagur, 7. október 2007
Bílar eru óþarfatæki
Nema svo sem stundum. Nú er ég (af illri nauðsyn) búin að vera með bíl í láni alla helgina og ég þakka mínum sæla að sú skuli ekki raunin dagsdaglega. Þetta er fínn bíll, Ford Multipla, gullfallega horgrænn með rúðum sem sést vel um til fjalla - en gírarnir eru stífir og hurðarhúnarnir standa á sér. Þegar ég legg af stað legg ég öll ósköpin sem fylgja mér í eitt sætið og svo tekur það mig hellingstíma að tína allt saman í lok (stuttrar) ferðar. Ég þarf að belta mig og finna handbremsuna sem er lengst niðri á gólfi vinstra megin.
Og svo nenni ég hvergi að koma við á leiðinni, a.m.k. ekki í búð, því að þá þarf ég að leita að stæði, hahha! Ég mun því ekki eignast bíl á næstunni þrátt fyrir ógnvænlegan samfélagslegan þrýsting (enda er ég svo heppin að eiga bróður sem er bílasali (og aflögufær um eigin bíla þegar svo háttar til)).
Svo væri kannski ráð líka að flytja til útlanda þar sem almenningssamgangnamenning er ríkari. Ég er komin með ríka ástæðu til að hugsa málið alvarlega.
Athugasemdir
Æ! Vertu frekar kyrr á landinu, ferðastu um á hjóli eða tveimur jafnfljótum og vertu með mér í því að efla samgangamenninguna á Íslandi.
... þú getur heldur ekki án okkar vinkvennanna verið!
Ásgerður (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 14:36
Ju, ég á sex ára afmæli í dag og mundi ekki eftir að segja það við neinn í vinnunni í ALLAN dag.
Og já, auðvitað hefur þú lög að mæla, Ásgerður, ég er háð ykkur.
Berglind Steinsdóttir, 8.10.2007 kl. 19:29
Ég gleymdi einu, ég er enn ekki búin að skila bílnum, fór á honum á Hilton-Nordica í morgun og þegar ég kom til baka var sprungið á einu dekkinu. Hvað gerði ég (fyrir utan að hugsa Gumma þegjandi þörfina, hehh)? Ég axlaði dótið mitt, arkaði á tveimur jafnfljótum og leið svimandi vel.
Berglind Steinsdóttir, 8.10.2007 kl. 19:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.