Laugardagur, 27. október 2007
Það er bannað að klifra í bonsai-trjám
Ég tók ekki margar myndir í Madrídarferðinni minni og bíð spennt eftir að komast í nokkrar frá öðrum til að stela. Hér eru flestar þeirra sem ég tók á símann minn - enda brást Ingvi við að hjálpa mér að finna nýja myndavél til að kaupa. Ég keypti stafræna vél árið 2001 á kr. 77.000 og nú er svo komið að ókunnugir sem detta inn á heimilið segja við fyrstu sýn: En nett kvikmyndatökuvél. Að auki eru gæðin að daprast af því að aðrar eru gæðameiri.
Á fjórum dögum náðum við að prófa ansi marga tapasrétti. Ég man ekki hvað þessi heitir en ég man að sumir litu girnilegar út.
Mér er sagt af einhverjum sem tók SPÆ 103 að þetta sé áskorun íbúa til djammara í hverfinu um að virða svefnfrið þeirra.
Þarna var ég ein á röltinu og gekk fram á mótmælendur (fyrir utan einhverja búð) sem ég held að hafi mótmælt háu íbúðaverði. Að minnsta kosti stóð eitthvað eins og *600 fjölskyldur á götunni* og leiðsögumaðurinn vitnaði síðar um að íbúðaverð væri orðið svo hátt að það væri orðið að samfélagsvandamáli.
Ég er svo skrýtó að mér þótti gaman að hnjóta um svona ráðuneyti. Á Íslandi erum við með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti sem mér skilst að verði um áramót að öðru og þá verði félagsmálaráðuneyti að félagsmála- og velferðarráðuneyti. Það er ekki eins og eitt sé leyft og annað bannað í þessum málum.
Við fórum inn í aðaljárnbrautarstöðina þar sem er frumskógur. Úðararnir voru í gangi í bæði skiptin og skjaldbökurnar hreyfðu sig. Ég held að við höfum öll verið sammála um að ekki væri vanþörf á svona góðu lofti á lestarstöðvum. Ég sá hins vegar aldrei neina lest. Það fyrsta sem okkur var sagt um þessa stöð var að þar hefðu hryðjuverkin 11. mars 2004 verið framin.
Úr glerlyftunni á Soffíu-safninu sást í hótelið, ljómandi notalegt hótel og mér fannst það vel staðsett í gullna þríhyrningnum.
Það er ekki alltaf mikið að sjá út um gluggana. Þarna erum við á leið til Madrídar aftur eftir að hafa eytt hálfum degi í Toledo. Ég gæti margt sagt um Toledo og ferðina þangað. Hef gert það og mun gera það.
Eftir fjóra daga í höfuðborg Spánar eru býsna margir hlutir ofarlega í huga:
- heimsókn í fulltrúaþingið þar sem þingmönnum er leyft að vera í gallabuxum og án hálstaus
- bæjarferð um Madríd þar sem maður kynntist breiðgötum og öngstrætum í fylgd með orðasmiðNUM
- tapastapastapas
- það var svo stutt á milli húsa sums staðar að ég fékk andarteppu við tilhugsunina um að halda þar til
- því miður komst maður hvergi inn til fólks og fyrir vikið sá ég ekki litadýrðina úr myndum Almadóvars
- Prado-safnið, Maja nakta og Maja klædda, skrímslið, dökku myndir Goyas, ljósmyndasýningin þar sem ég sá m.a. nútímaútgáfu af hinstu kvöldmáltíðinni
- Við erum hér, hvar ert þú? - brandarinn sem lifði góðu lífi í fjóra daga
- Soffíu-safnið þar sem Guernica Picassos er - ég er ekki svo verseruð að ég hafi þekkt það, sá bara risastórt verk sem var vel afgirt, gekk nálægt snúrunni og þá hrökk einn vörðurinn upp af stólnum vegna ógnarinnar sem af mér stafaði og ég sagði forheimsk á svipinn: Es Guernica?
- eftirlitsiðnaðurinn er brjálæðislegur
- vegna opinberrar heimsóknar voru á þriðjudaginn lögreglumenn og -bílar úti um allt - allt
- hótelið Husa del Arto sem var bara svo gott
- Edda var rænd
- leikurinn sem Real Madrid vann
- ekkert internet í fjóra daga
- ó, sól!
- ó, ó, rauða taskan sem ég keypti í Toledo - ég öfunda mig af henni sjálf
- ó, ó, ó, beinhvíta kápan sem ég passaði með naumindum ekki í, skæl og snökt
- járnbrautarstöðin með frumskóginum
- bonsai-trén í grasagarðinum þar sem hvorki mátti koma við né setjast - og þá varla klifra, hmm
- og 30 þumlar upp til Ólafsfirðinganna Guðnýjar, Siggu, Þorvaldar og Annettu sem komu sterk inn
Eins og gefur að skilja er listinn ekki tæmandi og ekki í mikilvægisröð. Meira af sama, takk, þótt síðar verði.
Athugasemdir
nefndu búð og stund. ég mæti og vel vél handa þér
ingvi (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 16:46
Segir hann 13 dögum síðar ...
Berglind Steinsdóttir, 9.11.2007 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.