Bónus er hverfisbúðin mín

Reyndar eru 10-11 og 11-11 líka í næsta nágrenni, Krambúðin á þarnæsta horni og Krónan ásamt Hagkaupum í hjólafjarlægð.

En ég kaupi inn í Bónusi og þar er verð þrátt fyrir allt oft lágt eða lægra en í öðrum nálægum búðum. Og nú er ég enn og aftur búin að fá svar um framlegð Bónuss, á strimlinum er annað verð en kirfilega auglýst inni í búðinni. Nú var ég t.d. látin kaupa tveggja lítra kók í þeirri góðu trú að flaskan kostaði 58 kr. Hún kostaði hins vegar á kassa 78 kr. Það sá ég þegar ég skoðaði strimilinn á hraðri leið í burtu, með poka í báðum höndum og flýtinn í sjálfri mér í augsýn. Ég vil sannarlega að bæði Vífilfell og Jón Ásgeir fái sanngjörn laun fyrir vinnuna sína en mér leiðist að láta ljúga að mér.

Ekki sneri ég við. Ég sný aldrei við, ætla bara alltaf að taka betur eftir næst. Og hvað eru 20 krónur ...? Þriðjungur af uppgefinni tölu, einn fjórði af innheimtri tölu. 33% yfir uppgefnu verði 10 mínútum innar í búðinni.

Svo er annað svar um framlegð Bónuss það að ég keypti líka vöru sem er ekki verðkönnunarvara, servíettur. Þær voru ekki á neinum spottprís, 20 ræfilslegar - en snotrar - og kostuðu 259 kr. Kirfilega ekki merkt á hillu - og ég í sakleysi mínu og asa mat það svo að Bónus myndi selja þessar servíettur við sanngjörnu verði.

Ég var á námskeiði í dag um dómtúlkun, bæði skemmtilegu og gagnlegu. Þegar við vorum búin að ræða fagmennsku, kröfur, ástundun, undirbúning, aðferðir, útkallstíma, viðbragðsflýti o.fl. í þeim dúr kom spurning um taxta. Dómtúlkurinn sem hefur 20 ára starfsreynslu sagði að ekki mætti hafa samráð - sem við föllumst á - en hún gæti sagt okkur að hún tæki kr. 6.500 á tímann + virðisaukaskatt. Þá skiptir engu þótt hún sé kölluð út um miðjar nætur (sem hún sagði reyndar fátítt) en að vísu er þriggja tíma útkall.

Okkur rak í rogastans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef lent í því að vera látin greiða fyrir 999 plastpoka í Bónus, þannig að ég get staðfest að maður verður að vera á varðbergi og maður má ekki vera á allt of mikilli hraðferð til að láta leiðrétta hlutina.

Auður Herdís Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 20:28

2 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

það þarf að skoða vel strimil í bónus.  Ég var að spá í það í dag að næst þegar ég fer að versla í bónus þá væri best að vera með myndavel með  sér og taka mynd af öllum hillumiðum á þeim vörum sem ég versla og bera svo saman við kassastrimil.  Þá er hægt að sjá svart á hvítu hvort verð hafi hækkað eða lækkað meðan ég geng um búðina.  Þetta gæti verið gaman að prófa.  Hver veit nema að ég geri þetta næst.

Þórður Ingi Bjarnason, 3.11.2007 kl. 21:24

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

999 plastpoka? Ég er rúmlega bit, hvernig er hægt að gera svoleiðis mistök? Annars heyrði ég Valgerði Sverris segja í Kastljósi í vikunni að hún hafi lent í því á bensínstöð að vera látin borga bensín annars neytanda og hún bað okkur að gera ekki sín mistök, heldur skoða alltaf töluna sem við skrifum undir.

Þórður, þetta er metnaðarfullt markmið en því miður giska ég á að þú takir mynd af einni vöru og hún reynist rétt verðlögð á kassanum. Þú með þitt stóra heimili hefur ekki tíma til að sinna starfi Neytendasamtakanna, ASÍ og talsmanns neytenda.

Neytendur allra land... neinei, neytendur á Íslandi sameinist um að vera á vaktinni.

Berglind Steinsdóttir, 4.11.2007 kl. 10:13

4 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þetta tæki tíma en það væri þess virði að pórfa.

Þórður Ingi Bjarnason, 4.11.2007 kl. 11:05

5 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Svo eru núna uppi ýmsar hugmyndir um gagnvirka síðu neytenda sem við gætum sett inn á upplýsingar um verð og hvenær varan var keypt. Ég heyrði í gærkvöldi að ASÍ gerði kannanir að beiðni verslananna og kæmi á þeim tíma sem þeim hentaði. Veit ekki hvað er hæft í því. Ég held þó að það hljóti að vera einfalt og auðvelt að gera kannanir án þess að verslunin viti af því fyrirfram.

Berglind Steinsdóttir, 4.11.2007 kl. 12:14

6 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Kannanir verða að gerast þegar verslanir vita ekki af þeim.  ef þær vita fyrirfram að verið sé að koma að taka könnun þá lækka þeir verðið.

Þórður Ingi Bjarnason, 4.11.2007 kl. 12:25

7 identicon

Já, það á alls ekki að láta verslanir vita að verið sé að koma til að gera verðkönnun og svo þarf varan að fara í gegnum kassaskannann svo eitthvað sé að marka þetta. Ég er til í að vinna við þetta ... eftir vinnu!

Það sem vantar í flesta Íslendinga er neytendavitund, -minni og -reiði. Neytendavitund til að hætta að kaupa inn hjá svikurum, neytendaminni til að muna það lengur en í viku og neytendareiði til að gera ALLT VITLAUST á öllum vígstöðvum; í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum, á vefsíðum, torgum o.s.frv.

Á (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband