Leiðsögumenn setjast að samningaborðinu

Kjaranefnd leiðsögumanna sem í eru Halldór S. Magnússon, Magnús Oddsson og Skúli Möller sest á morgun, mánudag, að samningaborðinu með hjálparkokkum okkar í ASÍ og reynir að ná samningum við Samtök atvinnulífsins. Það er ekki seinna vænna því að núverandi kjarasamningar renna út í árslok.

Mér finnst miður hvað ég hef ekkert fram að færa annað en það sem ég hef þegar gert, reynt að standa uppi í hárinu á þeim atvinnurekendum sem ætla ekki einu sinni að fara eftir okkar aumu samningum, reynt að halda því til haga að samningarnar sem hafa verið gerðir eru lágmarkssamningar en ekki tilfallandi-samningar eða stundum-samningar.

Ég hef tekið þátt í að berjast fyrir löggildingu, án árangurs - enn sem komið er. Nú um áramót flytjast ferðamál milli ráðuneyta og þá er lag að reyna enn. Þau rök sem ollu höfnuninni síðast, að löggilding útilokaði hæfa menn eins og Arthúr Björgvin Bollason, Sigurð Líndal og Ara Trausta Guðmundsson frá leiðsögn, þykja mér ekki halda vatni. Hæfir menn sem hafa sannað sig nú þegar geta annað hvort fengið undanþágu eða einfaldlega tekið stöðupróf sem þeir hljóta að standast með láði.

Taxtinn er of lágur, menn slíta sér út, segja já þegar þeir hafa ekki einu sinni orku til að segja nei við ferðum, og hætt er við að sumir leiðsögumenn nái ekki að uppfæra sjálfa sig, endurmennta sig, fylgjast með, fræðast meira og hlaða battaríin. Það bitnar til langs tíma á starfinu og einstaklingnum. Fullt af hæfu fólki hefur hrökklast úr stéttinni og farið í önnur störf þótt margt hæft fólk sé sem betur fer enn að störfum.

Mínar aðalkröfur væru hærri laun, lengri uppsagnarfrestur og aldrei minna en dagurinn greiddur. Fólk sem tekur að sér transfer kl. 12 á miðvikudegi getur ekki lofað sér í neina aðra launavinnu allan dann dag. Ólaunuð binding.

Aukakröfur vörðuðu aðbúnað í langferðum, gistingu og vinnuaðstöðu í rútu. Þótt ferðamenn séu upp til hópa skemmtilegir og eftirsóknarverður félagsskapur er líka stundum brýnt fyrir leiðsögumenn og bílstjóra að vera út af fyrir sig. Á því er mikill skortur í hringferðunum þegar báðar stéttir sitja t.d. skammt undan hópnum í matartímum - og elskulegum hópnum finnst sér stundum skylt að veita umræddum stéttum félagsskap.

Og það grátlega við þessa umræðu er að maður festist í baunum í stað þess að tala um fagið.

Frá því að ég las það að flekakenninguna gæti maður ekki útskýrt á Þingvöllum því að flekarnir mættust ekki þar hefur það varla borið á góma við kollegana, ekki í mínu tilfelli. Við komumst ekki upp úr baunatalningunni og upp á faglegan umræðugrundvöll. Ég er ekki búin að vera á Þingvöllum að ráði síðan ég heyrði af þessu en ég hef ekki hugsað mér að hætta að nota sigdalinn milli Norður-Ameríku- og Evrasíuflekans til merkis um flekaskilin. Hvar og hver er samt faglega umræðan um málið?

Hvernig er með Borgarfjörðinn sem stendur sig best í að vera með fjölmálaskilti á fallegum stoppistöðum? Verður einhvern tíma auðveldara að stoppa í Reykholti upp á mat að gera? Af hverju finnst mér Snorrastofa óspennandi? Það er gaman að skoða Snorralaug, styttuna af Snorra eftir Gustav Vigeland, kirkjugarðinn, jafnvel líta í átt til gróðurhúsanna en Snorrastofa dregur mig ekki inn. Hvað með aðra?

Segja menn frá Fróðárundrunum á Snæfellsnesi, draugagangi og blóðsúthellingum? Vinnst kannski ekki tími til? Segja menn Þjóðverjum og Norðmönnum frá en ekki hinum viðkvæmu Bandaríkjamönnum?

Hvernig segja leiðsögumenn frá pólitík á Íslandi? Að hér sé lýðræði, við höfum verið danskt amt, við veiddum hvali aftur til skamms tíma, herinn sé farinn, velmegun sé mikil, allir skuldi í jeppunum sínum, i-poddar séu hátt tollaðir?

Mikið væri gaman að komast upp úr skotgröfunum og fara að tala um fagið. Eigum við að reyna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mikið er þetta góð pæling hjá þér Berglind mín. Þú ert leiðsögumannastéttinni til sóma.

Steingerður Steinarsdóttir, 27.11.2007 kl. 13:27

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Takk, kæra Steingerður. Nú er mig farið að langa til að frétta eitthvað af fundinum í gær. Ég geri hins vegar ráð fyrir að þetta sé allt leyndó (og þá er vissast að leka engu í mig).

Berglind Steinsdóttir, 27.11.2007 kl. 17:25

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Tek undir með Steingerði - til mikil sóma!

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.11.2007 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband