Leiðsögn að vetrarlagi

Kannski má kalla mig frístundaleiðsögumann, a.m.k. hef ég ekki aðallífsviðurværi mitt af leiðsögn og mun bara halda áfram í þessu hlutastarfi eins lengi og ég hef gaman af. Ég er svo heppin að vinna helst fyrir fyrirtæki sem kann sig, þar sem eigendur eru húmoristar og treysta starfsmönnum sínum til verka. Að vísu rekur mig ekki minni til að hafa orðið fyrir vantrausti, en ég hef heyrt alls kyns sögur af óhæfu ferðaskrifstofufólki sem hringir í leiðsögumenn í tíma og ótíma, algjörlega að óþörfu. „Ertu komin/n á hótelið?“ „Tókstu nestið með?“

Ég hef heldur ekki verið tiltakanlega mikið við vetrarleiðsögn. Ég fór þó núna einn laugardag um miðjan nóvember á Langjökul með hvatahóp í því ískaldasta veðri sem ég hef upplifað þar um slóðir. Við lögðum af stað úr Reykjavík kl. 8 og fyrsta klukkutímann sáum við ekki neitt. Svo stoppuðum við í Fossatúni og eftir það sást bara sæmilega út um allar jepparúður.

Það sem kom mér á óvart var hve auðvelt reyndist að segja frá í niðamyrkri. Í þoku hef ég oft sagt frá lífi fyrri tíma, þegar fólk gekk á milli allra staða og bar mal sinn á bakinu, reyndi að flýta sér og jók hraðann, heyrði eigin hjartslátt og hélt að það væru ófreskjur sem ætluðu fólk lifandi að éta, komst heim við illan leik, skellti í lás og skemmti sér svo við að segja söguna. Aftur og aftur þess vegna, og alveg þangað til hún tapaði tengingunni við upprunalegan ótta.

Við svona frásagnir dundaði fólk sér á löngum kvöldum ásamt því að prjóna, þæfa, hekla og þvílíkt. Þessar sögur hafa lifað mann fram af manni og svo segi ég farþegum að við séum látin lesa þjóðsögurnar í grunnskóla, þess vegna trúum við svo staðfastlega á huldufólk og annað ósýnilegt!

Um daginn þegar við keyrðum af stað í myrkrinu sagði sú sem sat næst fyrir aftan mig: Segðu okkur frá jólasveinunum. Og það endaði með því að ég talaði um jólin í upp undir klukkutíma, svaraði spurningum og var næstum farin að sjóða hangikjötið. Það má gera sér mat úr myrkrinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar Ásinn var lítill (fyrir möööööörgum árum síðan! ) lék hann sér að því að búa til skelfilegar draugasögur í huganum þegar hann sat í bíl og úti var myrkur og/eða þoka. Draugasögurnar hræddu hins vegar engan annan en hann sjálfan vegna þess að hann sagði þær engum ... Ásinn ætti kannski að segja þér nokkrar svo þú getir hrætt nokkra túrhesta með þeim!

Ásinn (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 08:39

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég lenti einu sinni þoku á Reykjanesi og var búin að segja allar draugasögur og þjóðsögur sem mér duttu í hug þegar mér flaug í hug að segja söguna af villum frænda míns í þoku í fjallinu fyrir ofan bæinn þar sem hann var alinn upp. Hún vakti mesta athygli og fólkið kom til mín eftir á og spurði endalaust um þennan mann og ferðir hans.

Steingerður Steinarsdóttir, 28.11.2007 kl. 11:31

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Reynslusögurnar rokka, það er segin saga.

Berglind Steinsdóttir, 28.11.2007 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband