Horgrannur Harðskafi

Nú er ég bara að snúa út úr nafninu á nýjustu bók Arnaldar og því að á bls. 135 er horgrannur maður. Er hann svo grannur að hann er næstum horaður, hmm? Þetta orð, það að nafnið Harðskafi væri útskýrt í bókinni og sagt frá örlögum bróður Erlendar var það eina sem ég hafði heyrt um þessa sögu áður en ég byrjaði að lesa.

Mér finnst Harðskafi spennandi þótt mér finnist ennþá Grafarþögn besta bókin og Dauðarósir vanmetnasta. Þegar ég leit inn á Gegni sá ég reyndar að sagan Dauðarósir hefur verið endurprentuð oft, kannski kann þá fólk að meta hana en segir mér bara ekkert frá því, hmm.

Mér finnst nafnið Harðskafi ekki gott og ekki sérlega táknrænt fyrir söguna af mæðgunum og dauðahyggjunni. Ef Arnaldur væri ekki búinn að nota Kleifarvatn hefði ég stungið upp á Sandkluftavatni. Hafa ekki allar bækurnar hans borið bara eitt nafn? Þá verðum við að halda okkur við það og ég sting upp á að bókin hefði átt að heita Lausmælgi eða Trúnaðarbrestur.

--- Horgrönn, horgrannt ... notar einhver þetta orð í einhverri mynd? Eða ætlaði Arnaldur að skrifa holdgrannur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég gleymi því aldrei þegar ég fór í læknisskoðun í skólanum í gamla daga. Mamma vinkonu minnar var með henni og hún horfði á mig og sagði: Ósköp ertu horuð barn! Ég var bara smá-kríli og vissi ekkert hvað horuð þýddi - eina horið sem ég vissi um var grænt og slímugt! Mér fannst hún vera að segja að ég væri horug!!! Frekar móðgandi!! Við vikonurnar (og mamman) höfum oft hlegið að þessu síðan!

Þessi saga kemur hins vegar Arnaldi Indriðasyni ekkert við en ég er sammála Berglindi - mér finnst orðið horgrannur hræðilegt! Ég finn það heldur ekki í neinni orðabók eða orðasafni!

Ásinn (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 13:51

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þú hefur einmitt verið örgrönn (sbr. ekki er örgrannt um eitthvað), téhé. Arnaldur er ágætur fyrir sinn hatt - en hann er enginn Jón Kalman Stefánsson. Svo hlakka ég líka mikið til að lesa Óreiðu á striga eftir Kristínu Marju.

Berglind Steinsdóttir, 17.12.2007 kl. 17:28

3 identicon

Ég hef ekki heyrt neitt gott um Óreiðu á striga ... en hlakka til að vita hvað þú segir. Ég hlakka líka til að lesa Jón Kalman -  geymi hann eins og orðakonfekt fyrir jólin. 

Ásinn (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 10:51

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ekki neitt gott??? Hvernig fannst þér Karitas án titils?

Berglind Steinsdóttir, 19.12.2007 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband