Föstudagur, 4. janúar 2008
Hvað eiga topppunktur og stássstofa sameiginlegt?
Öndvegisfrændi minn sem alinn er upp á Selfossi heldur þessi misserin til erlendis þar sem hann þóttist ætla að skrifa Flórdæla sögu (meðfram sálfræðinámi sínu). Ekki ætlar hún að verða burðug þar sem hann hefur ekki skrifað í hana nýjan kafla í bráðum fimm mánuði.
Þegar hann var í jólaheimsókn sinni hittumst við og að vanda tókum við upp mikið og giftusamlegt hjal um tungumálið. Við reyndum að þýða búðarheitið fat face með öðru en feitafés, t.d. búldubolla - eða nei, líklega fundum við ekkert orð fyrir andlit sem byrjaði á b, við hefðum bara svo gjarnan viljað detta niður á góða stuðla. Svo sagðist hann langa að finna fleiri orð eins og topppunkt (úr stærðfræði) en héldi að aðeins eitt orð annað uppfyllti það.
Nú er ég komin á blaðsíðu 101 í stórfróðlegri bók um samsveitung Gumma Torfa og þar kemur við sögu stássstofa - sem uppfyllir leit Gumma.
Geta nú t.d. Ásinn, Laufið, Stína og Habbs rifjað upp fyrir mig fleiri (samsett) orð þar sem sami stafurinn kemur fyrir þrisvar í röð?
Og má kannski biðja um að veðrinu fari að slota svo að hríslurnar stækki ekki það mikið að þær nái að dangla í rúður á þriðju hæð? Ha, er ekki hægt að fara að fá svefnfrið fyrir allt-um-kring-garranum?
Athugasemdir
Flórdæla?
Er það ekki bara haugsuga?
Brjánn Guðjónsson, 4.1.2008 kl. 01:46
Hasssmygl, fimmmenningur, falllína, skatttaka.....
Halldór Egill Guðnason, 4.1.2008 kl. 01:49
Honum verður létt. Ég er nú eiginlega hneyksluð á mér að hugsa ekki út í fimmmenningana, en er falllína alvöruorð? Tengist hún þyrlum?
Haugsuga er mjög í anda sögunnar. Frændi er samt að snúa út úr orðinu Florida=Flórdalur, þess vegna Flórdæla saga, ræræræ.
Berglind Steinsdóttir, 4.1.2008 kl. 01:54
rassskellur, rasssár,
me (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 05:46
Alveg rétt, rassskellur var einmitt hitt orðið sem Gummi Torfi mundi. En rasssár ... og svo mundi ég núna eftir þátttöku. Það er ekkert lát á þessu.
Berglind Steinsdóttir, 4.1.2008 kl. 09:29
Þátttaka, alllangur, krakkkúla, ...
...man ekki fleira í bili en það kemur. Þetta er skemmtilegt!
Ásinn (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 10:17
Krakkkaka --- skrambans, Ásinn var á undan með sambærilegt.
Írafossstöð - er það ekki bara.
Og að lokum, algjör snilld - núlllausn :)
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 13:04
Gleymdi náttúrulega popppunkti - hinum ágæta spurningaþætti saman með popppoka.
hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 13:19
Og nú fer ég að fá velllaun...
Nátttreyja, knatttré, þurrrafhlaða, sprelllifandi, gulllax og rétttrúnaður
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 13:36
Ju já, þú færð velllaunin ... en ég lofa hvorki krakkköku né krakkkúlu.
Berglind Steinsdóttir, 4.1.2008 kl. 14:11
...snobbbréf, gallleki, djasssöngur, létttoppur, krossaga, falllengd, krossstingur
hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 16:18
Þú ert algjör uppspretta. Verðlaunin eru far með Ásnum að múrnum á mánudaginn ... eða þannig. Annars geturðu bara gert kröfu um hvað sem er, hmm.
Berglind Steinsdóttir, 4.1.2008 kl. 19:43
skatttekjur, blikkkúla, blikkkassi, lakkkústur,
me (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 23:08
Nohh, það er komin samkeppni um farið með Ásnum að múrnum, téhé. Er ekki annars rasssíður líka gilt orð? Hvað ætli mannnauð þýði, kannski nýyrði?
Berglind Steinsdóttir, 4.1.2008 kl. 23:31
Er gestkomandi á síðunni og í leiknum en legg til eftirfarandi:
falllögmál
krosssaumur
uppprentun
ætttengsl
alllengi
rétttrúnaður
bygggrjón
tolllög
upppumpaður
þátttökugjald
held þó að sum orðanna sem komið hafa hjá öðrum heimsækjendum séu hreinlega ekki til, en amast ekki við því enda þekki ég ekki ykkar leikreglur
hafið góðan dag
Gestur
Gestur (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 13:41
Gestur, ekki amast ég við þátttöku þinni. Og trúðu mér, leikreglurnar voru ekki ákveðnar fyrirfram.
Berglind Steinsdóttir, 6.1.2008 kl. 11:36
brotttækur, snitttappi, rétttentur, grugggildra, egggró, stökkkönguló... ló ló ló
hrafnhildur (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 09:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.