Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er mér að skapi

Ég hef áður heyrt Sigmund tala á borgarafundum og mér líkar vel húmorinn hans í bland við vit á efninu. Hann lýsti í Silfrinu áðan í máli og myndum hvað hefur gefist vel í skipulagsmálum borga - og hvað illa. Það sem stendur til við Laugaveginn núna hefur gefist illa í öðrum löndum; borgir sem leggja áherslu á smágerða og samfellda miðborgarmynd laða til sín ferðamenn og í kjölfarið koma atvinnurekendur og fyrirtæki.

Fyrir kannski rúmu ári fór ég í Nike-búðina til að kaupa mér skó og talaði lengi við eigandann/afgreiðslumanninn. Hann sagði að pólitíkusarnir hefðu ekki lagt leið sína til hans, ekki komið á bak við eða spurt sig álits. Ég er ekki viss um að öll húsin sem sumum var hrófað upp af litlum efnum í eina tíð eigi að standa. Ég er hins vegar handviss um að byggðin við Laugaveg eigi að vera lágreist, að í því sé gæfulegri framtíð en háhýsahótelum. Sem leiðsögumaður hef ég vitaskuld líka þá skoðun því að hvernig ætlum við að koma rútunum að svona hóteli með góðu móti? Nógu er það snúið með fjölmörg önnur hótel í miðbænum.

Í sumum húsanna við Laugaveginn er erfitt að komast inn með barnavagn eða í hjólastól og ég hef engan áhuga á að halda þeim hópum frá miðbænum. Það er ástæða til að laga götuna gjörvalla að breyttum tímum í því tilliti en Sigmundur er fyrir löngu búinn að sannfæra mig um ráðleysi þess að byggja háhýsi í miðbænum.

Það er fagmennska, byggð á skoðun á fjöldamörgum örðum borgum og reynslu þeirra af réttri breytni og rangri. Ég var í Stokkhólmi í fyrsta skipti í ágúst á síðasta ári, gamla stan er heillandi. Þótt veður sé víðast betra en hér er veður stundum ágætt - og arkitektúrinn ætti líka að geta stutt við veðursæld þannig að vindstrengir verði síður og sólinni ekki haldið burtu.

Megi ráðamenn hlusta á Sigmund þegar hann talar um skipulag miðborgarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Mjög gaman að viðtalinu við Sigmund og myndirnar sláandi

Hólmdís Hjartardóttir, 13.1.2008 kl. 14:27

2 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þetta var gott viðtal við Sigmund og hann lýsti þessum vel.  Það á að laga húsinn á Laugaveginum eins og þau voru.  Hótel á ekki heima þarna þar sem rútur geta ekki og meiga ekki aka niður Laugarveginn. 

Vonandi hlusta ráðamenn á Sigmund.

Þórður Ingi Bjarnason, 13.1.2008 kl. 14:33

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér fannst þetta eitt merkilegasta innlegg sem komið hefur í Silfri Egils og hver veit nema Egill skipti nú sjálfur um skoðun í niðurrifsmálunum. Hann hefur verið mikill talsmaður þess að rífa gömul hús og byggja ný.

Ég sat fund í Ráðhúsinu í haust, minnir mig, þar sem Sigmundur hélt fyrirlestur og sýndi myndir, margar þær sömu og í Silfrinu áðan. Jafnvel hörðustu niðurrifsöflin hljóta að hugsa sinn gang og taka mark á slíkum málflutningi.

Nú bíð ég spennt eftir að sjá sjónvarpsþættina sem Sigmundur segist vera að gera um málið og sýndir verða á RÚV.

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.1.2008 kl. 14:40

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, Sigmundur er nefnilega alveg laus við ofstopa, veit sínu viti og talar skilmerkilega. Tilfinningasemi hjálpar ekki í svona málum þótt tilfinningaleg rök séu vitaskuld gild. Ég hlakka líka til að sjá þættina.

Berglind Steinsdóttir, 13.1.2008 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband