Sálfræði auglýsinganna virkar ekki á mig

Væntanlega halda margir því fram að þeim takist að leiða auglýsingar hjá sér. Ég held því sannarlega fram. Þó veit ég að sumar þeirra hafa neikvæð áhrif á mig.

Ég myndi t.d. ekki skipta við Remax ef ég kæmist hjá því. Allt jaríjaríið um áramótin var neikvæð upplifun. Þegar ég las síðan um eigandann sem er að láta byggja 800 fermetra einbýlishús fyrir sig sannfærðist ég frekar. Sú frétt var á við fínustu neikvæða auglýsingu.

Kaupþing skorar mjög magurt. Reyndar finnst mér vanta mjög á almenna og almennilega samkeppni á bankamarkaði en að sinni get ég unað við sparisjóðinn. Þó hlakka ég mikið til þegar vextir verða orðnir mannsæmandi og mönnum bjóðandi. Það gerist áður en ég hrekk upp af og þá njóta þess næstu kynslóðir. Maður verður að hugsa stórt.

Renningarnir á blogginu trufla mig ekki nema þegar þeim fylgir hljóð. Það var um tíma á fasteignavefnum. Sem betur fer hætti sá auglýsandi að hefta.

Aðalauglýsingarnar eru í blöðunum. Og nú get ég staðið við fullyrðinguna í fyrirsögninni. Ég veit aldrei hvað verið er að auglýsa. Stundum finnst mér það m.a.s. frekar fúlt því að einstaka auglýsingar hafa upplýsingagildi sem ég kann að meta. Mig langaði að sjá hvaða 100 konur auglýstu eftir stjórnarformennsku um daginn en þar sem ég les næstum aldrei hægri síðuna í framhluta blaðanna fór ég á mis við þær upplýsingar.

Ég hugsa að svona sé komið fyrir fleirum. Ef auglýsendur læsu þessa hugleiðingu mættu þeir vel velta fyrir sér hvort markaðssetningin er ekki svolítið farin út um gluggann.

Besta auglýsingin er alltaf ánægður kúnni.

Orðsporið rokkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Veistu, auglýsingar fá mig næstum aldrei til að  kaupa en þær fá mig oft til þess að forðast vöru. Sérstaklega þegar mikið er auglýst. Þá fær maður alveg grænar. Tók annars einu sinni þátt í könnun sem hafði með auglýsingar að gera. Mundi ekki eftir að neinar vörurnar sem nefndar voru hefðu verið auglýstar, en þegar konan sem tók könnunina lýsti nokkrum þeirra vissi ég auðvitað að ég hafði séð þær oft. En ég hafði alls ekki munað hver auglýsandinn var. Það sem hefur mest áhrif á mig eru auglýsingar eins og gamla Lion Bar auglýsingin þar sem heitu súkkulaði var helt yfir karmellustykki. Þá langaði mig virkilega í Lion Bar, jafnvel þótt mér þætti það alls ekki gott. Nú langar mig í það bara við það að hugsa um þessa auglýsingu.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.2.2008 kl. 04:54

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Stína, líklega verðum við samt fyrir áhrifum ... Annars man ég núna eftir einhverri bílaauglýsingu fyrir nokkrum árum sem Edda Björgvins lék í og ég hefði ekki getað unnið mér til lífs að vita tegundina. Ekki man ég heldur núna hvaða hallæristegund er RISASMÁR.

En Lion Bar er seigt súkkulaði, huhh.

Berglind Steinsdóttir, 12.2.2008 kl. 08:33

3 identicon

Yaris.

 Það breytir því hins vegar ekki að ég myndi ekki þekkja eins margar vörur nema af því að þær hafa verið auglýstar grimmt. Nefni sem dæmi Yes ultra sem einn daginn breyttist í Fairy. Allar þessar nýju bílategundir myndu alveg fara fram hjá mér ef þær væru ekki auglýstar í hel Trafic Megano eitthvað.

Sem minnir mig á að fljótlega þarf ég að fara að borga meira í tryggingar af því að fólk á svo dýra bíla og er alltaf að klessukeyra þá. Tryggingafélagið eru farin að væla um að tjónum hafi fjölgað og hvert tjón sé svo svakalega miklu dýrara en bara í fyrradag. Reikna með að það breyti  litlu að ég á alls ekki dýran bíl og dunda mér sáralítið við að klessa hann.  

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 09:01

4 identicon

þú hefur þá ekki séð sænska þáttinn um vörumerki og auglýsingar sem var á dagskrá RÚV ekki alls fyrir löngu. Hann kom glettilega á óvart en fjallaði meira um hvernig auglýsingaheimurinn er að breytast.

Mig langaði líka alltaf í Lion Bar þegar ég sá þessa auglýsingu forðum en varð líka alltaf fyrir vonbrigðum því mér finnst Lion Bar alls ekkert gott.

Elísabet (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 10:12

5 identicon

Ég er sammála bæði Berglindi og Kristínu; yfirleitt hafa auglýsingar þveröfug áhrif á mig, ég forðast vöru sem auglýst er grimmt en kaupi frekar vöru sem vinir og vandamenn hafa góða reynslu af.

Ég hef ímugust á sölumennsku. Ég var sölumaður í mörg ár og kannski er það þess vegna. Á námskeiðum lærði maður alls konar trix en ég þoldi þau ekki og vildi ekki beita þeim á viðskiptavininn. Ég sagði hiklaust frá því ef flíkin passaði ekki eða fór ekki vel og reyndi aldrei að plata fólk til að kaupa eitthvað sem það þurfti ekki. Eigandi búðarinnar var ekki alltaf ánægður með þessa hreinskilni mína en viðskiptavinirnir voru ánægðir - held ég.

Hugsanlega er það vegna þess að ég tel mig þekkja öll helstu trixin í sölumennsku sem ég á mjög erfitt með að leita til sölumanns. Ég er of meðvituð um að hann sé þarna fyrst og fremst til að selja mér eitthvað en ekki að gera mér greiða og ráða mér heilt.

Ég er hins vegar hræddari við duldu auglýsingarnar sem eru út um allt (eins og bent var á í þessum sænska þætti um vörumerki og auglýsingar). Við erum ekki meðvituð um þær en þær smjúga inn og hafa áhrif á undirmeðvitundina. Í kvikmyndum er t.d. fullt af duldum auglýsinum. Í tónlistarmyndböndum - jafnvel fyrir börn - eru duldar auglýsingar. Og það er sko engin tilviljun hvernig raðað er í hillurnar í búðunum! Allt eru þetta dæmi um duldar auglýsingar. Auglýsingum er nefnilega þröngvað upp á okkur hvar sem við erum.

Ásgerður (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 13:43

6 identicon

... og talandi um minnisstæðar auglýsingar. Þegar ég var lítil langaði mig alltaf í bakaðar baunir þegar ég sá litla strákinn með baunadósaturninn. Það sem meira var - ég var alveg svaaaaakalega skotin í honum!!

Mig langaði hins vegar aldrei í snakk þegar ég sá Þykkvabæjar-snakkauglýsinguna með álfunum - jafnvel þótt mér þætti lagið skemmtilegt.

Ásgerður (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 13:47

7 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Sem minnir mig einmitt á þegar Ármann (Guðmundsson, ekki hinn) vann á auglýsingastofunni og gerði mér ljóst að fyndnu auglýsingarnar seldu ekki. Fólk lítur á þær sem leikþætti. Leiðinlegu auglýsingar komast á milli tannanna á fólki - og það selur. Neikvætt umtal er betra en ekkert umtal! Sérstaklega til langs tíma því að þá man fólk bara vörumerkið en ekki hvers vegna það man það.

Og þetta veit ég af reynslunni einni saman (má reyna að hrekja ...).

Berglind Steinsdóttir, 12.2.2008 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband