Sólarferð Guðmundar Steinssonar

Ég sá forsýningu í fullum sal Þjóðleikhússins og var ekki eins hrifin og ég gerði mér vonir um. Vissulega á sýningin eftir að þéttast - og vissulega hló ég samt oft. Ég sat líka á milli Ásgerðar hláturpoka og annars Guðmundar Steinssonar og þau smituðu mig með gleði sinni. Búningar og leikmunir voru svo eitís (jafnvel seventís?) að við féllum alveg í stafi, það vantaði ekkert upp á lúkkið. Ég hafði gaman af leikurunum - efasemdir mínar snúast um leikritið.

Tvenn hjón fara til Mæjorku að njóta sólar og ódýrra áfengra drykkja (ekki pina colada, ekki tia maria, þeir hétu eitthvað annað). Við dveljumst mikið inni í herbergi Stefáns og Nínu og mikið óskaplega lifa þau innantómu lífi, a.m.k. í þessu sumarfríi. Svona voru sólarferðirnar er manni sagt, lúxusinn var að komast í sólarfrí þar sem ekkert átti að gera annað en að sóla sig, brenna hæfilega og svala þorsta sínum í áfengum drykkjum.

Þegar önnum kafið fólk lítur upp úr önnum sínum uppgötvar það stundum að það á ekki það sameiginlegt sem það hafði talið. Það getur verið kjörlendi fyrir leikrit; samtöl, stefnubreytingar, uppgjör. Mér þótti ekki nóg af þessu.

Kannski var ég móttækilegri þegar Stundarfriður fór á svið. Það leikrit þótti mér snerta kviku og ég vonaðist eftir svipaðri upplifun. Ég er líklega bara orðin svo assgoti heimtufrek - því að mér þótti samt gaman á sýningunni. Ég efast bara um að ég vakni í fyrramálið með hana í kollinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Cuba Libre ... drykkirnir!!

Ásgerður hláturpoki (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 08:44

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, og einmitt ekki cuba libra - eins og fram kom í leikritinu.

Berglind Steinsdóttir, 15.2.2008 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband