Laugardagur, 16. febrúar 2008
Láti gott á vita
Jónmundur er auðvitað ekki fyrsti maðurinn til að benda á hið augljósa en vonandi breytist nú kúrsinn. Vonandi ná menn að líta upp úr steypunni og horfa á starfið og manneskjuna sem gegnir því. Vonandi hætta menn að miða við lægsta samnefnara - auðvitað eru slakir kennarar innan um - og fara að horfa til heildarinnar.
Ég þekki að vísu betur til í framhaldsskólum en grunnskólum þannig að ég ætla að spara allar yfirlýsingar um skólastigið sem heyrir undir sveitarstjórnarstigið en ég ætla að rifja upp að kennarar sem taka starfið alvarlega, eru vaknir og sofnir [hlýtur að vera svona í fleirtölu], nota öll möguleg tækifæri til að viða að sér efni og hugsa upp leiðir til að gera námsefnið forvitnilegt og skemmtilegt, brydda upp á nýjungum og prófa nýjar aðferðir. Þeir setja sig inn í námsefnið, auðvitað, reyna að nálgast það frá sjónarhóli nemandans líka og krydda með jaðarefni. Þeir nota eigin fyrirlestra, láta nemendur flytja fyrirlestra, semja verkefni, fara í hlutverkaleiki, nota spil, fara í vettvangsferðir, kynda undir ímyndunaraflinu.
Með breyttu samfélagi lenda líka félagsleg umhugsunarefni í fangi kennarans. Ég vona að ég brjóti ekki trúnað með því að segja að vinkona mín sem er hætt að kenna veitti því eftirtekt í fari vel gefins nemanda síns að hún var farin að slá slöku við. Vinkona mín gekk á hana og fékk hana til að segja sér frá ofbeldi sem hún hafði orðið fyrir, þess konar ofbeldi sem braut niður sjálfsmyndina. Þessi vinkona mín sat með nemandanum stundirnar langar, fékk hana til að leita sér faglegrar aðstoðar og kom henni á réttan kjöl. Þessi vinkona mín gafst á endanum upp á 270.000 kr. mánaðarlaunum og starfi sem hún fór alltaf með heim í lok dags, fékk vinnu með vinnutíma 8-4 og hækkaði í launum um 55%. Hún notar enn háskólamenntunina. Heppin.
Ég veit að hnífurinn stendur dálítið í þeirri kú að kennarastéttin er fjölmenn. Launagreiðendur verða samt að líta upp úr steypunni og hætta að horfa bara út um gluggana, líta líka inn á við og spyrja sig hvað skipti máli.
Að svo mæltu lýsi ég því yfir að ég vildi stokka miklu meira upp í skólunum, hafa betri vinnuaðstöðu í húsnæði skólans og skikka - já, segi og skrifa - kennara til að vera á staðnum á ákveðnum tíma, t.d. 8-4, svo að hægt sé að vera með meiri samvinnu. Mér þótti sjálfri best að kenna í þeim skóla þar sem ég gat gengið að samkennurum mínum á dagvinnutíma og rætt hugmyndir fram og til baka. Á því græddi ég og á því held ég að nemendur græði. Starf einyrkjans er svo lýjandi.
Vill hækka laun kennara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gafst hún upp á 270.000 króna launum? Ég þekki fullt af fólki sem myndi drepa fyrir þau laun (-:
Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 00:12
Vá, þá er illt í efni. Er það menntafólk, með mikla reynslu og mikla ábyrgð? Eftirsóttur starfskraftur?
Berglind Steinsdóttir, 17.2.2008 kl. 10:15
Ég þekki marga kennara og hef fylgst með störfum þeirra lengi. Það er alveg ótrúlegt hvað áhuginn á starfinu hefur keyrt þá áfram - en eins og þú sagðir einu sinni sjálf um kjör leiðsögumanna, Berglind: Það er ekki nóg að það sé gaman í vinnunni.
Kennarar eru síst ofhaldnir í launum, starf þeirra er erfitt, þeir bera mikla ábyrgð en þeir eru vanmetnir bæði af þjóðfélaginu og yfirvöldum.
Kom ekki fram í fréttum nýverið að kennarar á Íslandi séu lægst launaðir af kennurum á öllum Norðurlöndunum og flestum löndum Vestur-Evrópu...? Það er skömm að þessu.
Lára Hanna Einarsdóttir, 17.2.2008 kl. 10:37
Já, ég hef margrekið mig á að fólk ber kennarastéttina saman við ósambærilegar stéttir, t.d. afgreiðslustéttir sem bera litla ábyrgð - og enga á vellíðan og framförum fólks.
Í annan stað virðast margir miða við lélegustu kennarana því að auðvitað eru til áhuga- og metnaðarlausir kennarar.
Af 270.000 krónum eru svona 170.000 til útborgunar og ég þekki engan persónulega sem öfundar neinn af að halda heimili og lifa af þeim ráðstöfunartekjum, síst í svona æsingarkenndu fasteignaumhverfi sem nú er runnið upp. Þar fyrir utan er óbein krafa til kennara um að þeir leggi sjálfir til gögn, eins og tölvu heima fyrir og prentara. Ég veit ekki hvort kennarar fá adsl eða síma greiddan en veit hins að þeir nota þessa tækni við undirbúning kennslu.
Hugarfarið þarf að breytast. Nú eru Þorgerður Katrín og Jónmundur búin að stíga skref sem vonandi marka upphaf farsællar vegferðar.
Berglind Steinsdóttir, 17.2.2008 kl. 11:17
Nei, Bragi Þór, 270 þús. eru sko ekki lág laun enda lifði ég ágætu lífi á þeim. Leyfði mér reyndar ekki margt (sérstaklega þar sem makinn er ríkisstarfsmaður á lægri launum) en komst vel af á þessum launum. Hins vegar verður maður þreyttur í starfi sem krefst þess að maður sendi börnin sín í pössun helgi eftir helgi (báða dagana) til að geta farið yfir verkefni, ritgerðir og próf og vinni öll kvöld - líka föstudags- og laugardagskvöld. Maður verður enn þreyttari á starfi sem heldur fyrir manni vöku vegna áhyggna af heimilisaðstæðum og sálarheill samstarfsmanna (í þessu tilfelli nemenda - í fleirtölu). Mig langaði ekki til að missa af æsku barnanna minna fyrir þetta álag og þessi laun. Ég dáist að þeim sem endast lengur í þessu starfi en ég gerði ... en ég kenndi þó í 10 ár.
Þetta með samstarfið, sem Berglind nefndi, er gott og gilt en erfitt í aðgerð. Sértu að kenna til tæplega 3 síðdegis þá er lítill tíminn til samráðsfunda. Í flestum skólum er eitthvað samstarf milli kennara en vegna ólíkra stundaskráa er oft vont að koma því við. Samstarfsfundir fara því oft fram í kaffihléum og yfir hádegismatnum ... og reyndist mér og fleirum vel. ... en svo eru auðvitað alltaf einhverjir sem vilja alls ekkert samstarf og þá er erfitt að neyða fólk til þess.
Ég er sammála Berglindi; það þarf að stokka upp í skólakerfinu, hækka launin en ekki síður lækka kennsluskylduna. Þá hefðu kennarar meiri tíma til undirbúnings í skólanum ... og meiri tíma til samstarfs. Ég er hins vegar ekki eins sannfærð og margir pólitíkusar um að lykillinn að bættu skólastarfi og betri árangri nemenda sé að láta alla kennara vera með meistaragráðu. Gráðan gerir þá ekki sjálfkrafa að góðum/betri kennurum.
Kennarinn (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 09:04
Ein vinkona mín sem er nýhætt kennslu (á gagnfræðastigi) og er komin í hálft starf í starfsmannahaldi hjá stóru fyrirtæki. Þar fær hún 40% hærri laun fyrir 50% starf en hún var með í 75% kennslustöðu! Það er ljótt að missa gott og áhugasamt og áhugavekjandi fólk úr þessari stétt og ég vona að þetta fari að þróast í rétta átt fyrir kennara. Og nemendur því þeir græða á þessu líka.
Elísabet (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 17:17
Ég hallast að því að tónlistarmaðurinn og tölvufræðingurinn hafi ekki litið inn á síðuna aftur. Annars hefði hann áreiðanlega svarað fyrir sig. Og þó, kannski var hann að gantast.
Uppáhaldsfrasinn minn þessa mánuðina er: Það er ekki nóg að hlutirnir séu réttir/sanngjarnir, þeir verða líka að líta út fyrir það. Það að kennarar verði fyrir þrálátri gagnrýni bendir til að of margir viti ekki hvernig vandaðir kennarar vinna. Of margir halda að kennarar hafi það svo náðugt í jóla-, páska- og sumarfríum að það réttlæti ómanneskjulegt og illa borgað álag.
Af hverju hópast ekki fólk í þessa stétt ef hún hefur það svona náðugt?
Ég tek undir með Elísabetu, það er dapurt að missa gott fólk úr kennslu.
Berglind Steinsdóttir, 18.2.2008 kl. 18:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.