Miðvikudagur, 20. febrúar 2008
Hvað þýða ,,versnandi atvinnuhorfur"?
Nú er þrálátur orðrómur um að farið verði að segja upp í bönkunum og að það fari að dragast saman í atvinnulífinu. Þýðir það að viðskiptafræðingar, lögfræðingar og tölvufræðingar missi vinnuna?
Ég heyrði á Bylgjunni í morgun merkilegt viðtal við Magnús Baldursson, fræðslustjóra Hafnarfjarðar, sem sagði að bankafólkið skyldi endilega sækja um á leikskólum, það yrði vel tekið á móti því. Mig rak í rogastans, ætli sérhæfing talnafræðings komi að miklu gagni í uppeldisstörfum? Finnst leikskælingum starfi þeirra sýnd næg virðing þegar víurnar eru svona bornar í fólk sem hefur menntað sig til allt annarra starfa? Eru launin sambærileg?
Ef menn væru að tala um atvinnuástandið í þorskinum sem var skorinn niður og loðnunni sem var skorin burt gæti ég skilið að menn hefðu áhyggjur. Að menn hafi áhyggjur. Mér rennur til rifja hvernig sumum plássum fjarri suðvesturhorninu blæðir. Ég hitti Stöðfirðing nýlega sem sagði að fólk sogaðist þaðan í burtu með þurrð á fiski, annað hvort til Reykjavíkur eða Reyðarfjarðar. Þótt Austurland dafni sums staðar er hert að annars staðar. Og íbúum þeirra staða er ekki skemmt.
Ég gæti sum sé skilið ef menn hefðu áhyggjur af þessum atvinnuhorfum. En mér heyrast áhyggjurnar snúast um bankana og útrásina. Þýðir það - ef svo illa fer - að obbinn af fólki fari að vinna bara 100% vinnu?
Ég þekki nefnilega varla manneskju sem vinnur ekki mun meira en fulla vinnu. Sjálf er ég ágætt dæmi, ég hef ekki undan að banda frá mér skemmtilegum verkefnum meðfram fastri vinnu. Sum tek ég að mér, kennslu í íslensku fyrir útlendinga, prófarkalestur, þýðingar, leiðsögn. Ef þrengist að gæti verið að ég yrði að láta mér 100% duga - og er það ekki í lagi?
Útlendingar sem ég þekki furða sig mikið á aukastörfum Íslendinga. Þeir spyrja hvort við eigum engin áhugamál. Erum við ekki svona andvaralaus og ligeglad af því að við hlaupum svo hratt í lífsgæðakapphlaupinu - og út af þenslunni?
Á hverjum mun kreppan bitna?? Á hverjum hefur þenslan bitnað?
Best að hugsa málið yfir skemmtilegu þýðingaverkefni frá Alþjóðahúsi ...
Athugasemdir
Mikið helvíti er þetta góður pistill hjá þér, Berglind!
Lára Hanna Einarsdóttir, 21.2.2008 kl. 00:14
Æ, takk. Og get ég ekki treyst því að þú mætir á aðalfund FL eftir viku? Ég skal draga þig að landi með einhver verkefni í kaffihléinu ...
Og skemmtilegt að þú notir eitt bölv til áhersluauka. Greindur þýsk-írskur nemandi spurði mig nýlega hvort það að bölva væri álitið ruddalegt á Íslandi. Ég hugsaði mig um og spurðist fyrir í nærumhverfi mínu og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Enda sannar þú það hér, ójá.
Berglind Steinsdóttir, 21.2.2008 kl. 08:23
Flottur pistill og þú sómir þér vel sem samviska þessarar þjóðar Berglind mín.
Steingerður Steinarsdóttir, 21.2.2008 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.