Mánudagur, 25. febrúar 2008
Skásti peningabankinn
Um síðustu mánaðamót gleymdi ég að borga greiðslukortsreikning upp á 94.148 kr. þegar ég fór yfir hann í heimabankanum. Tæpri viku síðar fékk ég höfnun þegar ég ætlaði að nota kortið í fyrsta skipti í mánuðinum. Þá fór ég í heimabankann og borgaði reikninginn. Tveimur dögum seinna fékk ég í löturpósti ítrekun um að borga. Dagsetningin var dagsetning greiðsludagsins. Það kostaði mig 525 kr. Núna fæ ég reikninginn og þá þarf ég líka að borga vexti upp á 588 kr. fyrir utan auðvitað meint útskriftargjald fyrir reikning sem bankinn neitar að senda mér bara rafrænt.
Þessar 1.113 kr. má ég borga fyrir að skulda bankanum 94.148 kr. í slétta viku. Frá þóknun bankans verður auðvitað að draga póstburðargjald og pappírskostnað. En bankanum hefur ekki orðið skotaskuld úr að senda mér rafrænt alls kyns skilaboð út af einhverri meintri nýrri þjónustu.
Og þessi banki hefur komið skást út í skoðun minni á samkeppni bankanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.