Þriðjudagur, 25. mars 2008
Sænskur krimmi í danska sjónvarpinu
Ég sem er lestrarhestur að upplagi nenni ekki að lesa margar sakamálasögur. Ég las reyndar Aftureldingu þegar hún kom út og skemmti mér konunglega yfir fyrsta þættinum eftir bókinni sem sýndur var í sjónvarpinu í gærkvöldi.
Svo datt ég inn á DR1 eftir það og sá sænsku spennumyndina Niðurtalningu - með dönskum texta. Gat ekki slitið mig frá henni. Og hún er byggð á sögu eftir hina hundleiðinlegu Lizu Marklund, eða kannski hefur mér bara mislíkað þýðingin þegar ég reyndi að lesa hana. Kannski reyndi ég bara einu sinni að lesa bók eftir Lizu og þegar sænski ráðherrann var búinn að keyra 90 mílur frá París og kominn langleiðina til Stokkhólms fauk svo í mig að ég henti bókinni í fjærhornið og sór að gera ekki frekari tilraunir til að lesa höfundinn. 90 sænskar mílur eru u.þ.b. 900 (íslenskir) kílómetrar.
Þýðingin eyðilagði lesturinn fyrir mér en danska sjónvarpið bjargaði sögunni, þ.e. einhverri sögu eftir Lizu Marklund sem ég gef kannski annan séns núna.
Athugasemdir
Já, ég held að ég verði að prófa að lesa hana á sænsku. Mannaveiðar voru einmitt mjög samnorrænar þannig að þáttaröðin hlýtur að verða sýnd í Skandinavíu gjörvallri.
Berglind Steinsdóttir, 25.3.2008 kl. 17:44
Ég er hrifin af Lizu Marklund. Hef beinlínis legið í bókunum hennar. En þetta er auðvitað smekksatriði. Mílurnar trufla mig ekki neitt enda hef ég ekki hugmynd um hvað enska míla er löng, sænsk míla eða íslensk míla.
Steingerður Steinarsdóttir, 26.3.2008 kl. 16:35
Ég held að þýðing bóka geti samt haft úrslitaáhrif á hvort manni líkar við þær eða ekki. Ég las um árið í þýðingu Ísdrottninguna (minnir mig) eftir sænska konu og botnaði ekkert í hvernig bókin gæti verið vinsæl, skildist þá að þýðingin afbakaði hana svona mikið. Ég sofnaði yfir henni þótt hún væri meint spennubók.
Steingerður, ég trúi ekki að þú takir ekki eftir þýðingum almennt séð.
Berglind Steinsdóttir, 26.3.2008 kl. 17:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.