Er miðbærinn í gíslingu?

Þórður Magnússon, talsmaður Torfusamtakanna, sýndi Agli Helgasyni og áhorfendum Silfursins í dag myndir, bæði ljósmyndir og teiknaðar, úr miðbænum. Þessa umræðu hef ég auðvitað orðið vör við og verð að segja að ég hef nokkrar áhyggjur af stöðu miðbæjarins. Ég geng oft Laugaveginn, bæði á eigin vegum og stundum með útlendinga, og hef skammast mín fyrir tómlega glugga og hálfkarað viðhald. Ég hef verið ótrúlega sinnulaus um veggjakrot og næstum algjörlega dofin fyrir því sem virðist nú vera staðreynd, að fjársterkir kaupi eignir vegna lóðanna og ætli síðan að halda að sér höndum í öllu tilliti og bíða þess að geta selt lóðirnar undir gríðarleg háhýsi.

Ég er hlynnt þéttingu byggðar heilt yfir en það er einhver ógeðug lykt af þessu máli, ekki samfélagsleg vitund um þéttingu byggðar byggðarinnar vegna og íbúanna, heldur einstakra gráðugra verktaka. Og miðbærinn á ekki frekar en nokkurt hverfi skilið að verða bráð neinna manna sem hafa eigin hag einan að leiðarljósi.

Ég hef haft rúmlega annað augað á fasteignaauglýsingum í alllangan tíma og þá helst litið til 101, 105 og 107 - en mér hefur algjörlega yfirsést þessi auglýsing sem Þórður vakti athygli áhorfenda á. Reiknar seljandinn með að 47 fm einbýlishús seljist á verði sem er einhvers staðar nálægt 71 milljón? Hvað vakir annars fyrir honum? Já, í stað kofa sem hægt væri að gera huggulegan og viðhalda götumyndinni stendur til að tildra upp sex íbúða húsi. Engin mynd fylgir og ég veit ekki hvaða hús þetta er en það þarf engan eldflaugafræðing til að sjá að götumyndin muni - myndi - breytast.  

Og hvernig ætlar nú borgin að tryggja það að miðbærinn nái sér á strik?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Ekki gæti ég hugsað mér að búa í þessari ljótu borg Reykjavík.  Ég hugsa að Reykjavík sé að ná þeim árangri að verða ljótasta borg Evrópu.  Það verður að fara að gera eitthvað til að laga til í þessari borg.

Þórður Ingi Bjarnason, 30.3.2008 kl. 18:30

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Hey, þetta var nú óþarfi ... þótt Hafnarfjörður slái Reykjavík við í augnablikinu.

Berglind Steinsdóttir, 30.3.2008 kl. 19:26

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég held að það megi varla á milli sjá hver er að verða ljótari - Reykjavík, Kópavogur eða Hafnarfjörður. Mér heyrist að Akureyri ætli að slást í hópinn með fáránlegum háhýsum.

Græðgisvæðingin teygir anga sína víða og verktakar sem borga feitt í kosningasjóði flokka og einstaklinga og fá í staðinn að leika lausum hala í skipulaginu.

Var að skrifa um þetta sjálf á minni síðu og er rétt að byrja.

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.3.2008 kl. 19:32

4 identicon

Já nei nei, ekkert svona.

Ég bjó í 21 ár í útálandistan og það styttist óðum í þann áfanga að ég hafi búið í 21 ár í Reykjavík og í mínum huga er Reykjavík EKKI ljót borg. Ég bý í bærilega þéttbýli hverfi með huggulegri hverfisbúð og leikskóla, grunnskóla og menntaskóla í göngufjarlægð. Héðan er stutt í ísbúðina, í klippingu, í snyrtingu, bakaríið og meira að segja sérverslun með einhverja súper dúper tölvuíhluti. 

Mitt hverfi er bara býsna huggulegt og eftir að það verður búið að sópa burt sandinum af gangstéttunum eftir veturinn þá hef ég ekki yfir neinu að kvarta nema einu - ég þoli ekki veggjakrot. Ég þoli ekki orðræðu um listrænan metnað veggjakrotara sem í skjóli þeirrar umræðu hafa krotað á hvern einasta bekk í mínu hverfi, alla róluvelli, alla rafmagnskassa, fjölda ljósastaura, strætóskýla, grindverka, umferðaskilta og bílskúra fyrir utan það að krota leikskóla og skóla barnanna minna reglulega um leið og þeir kveikja í ruslatunnum og blaðagámum. Ég veit að borgin er að vinna metnaðarfullt starf vegna veggjakrots og ég myndi gjarnan vilja að eigendur fasteigna gætu séð sóma sinn í því að gera slíkt og hið sama. Raunar skil ég ekkert í af hverju mörgum fasteignaeigendum dettur í hug að gera ekki neitt. Og þetta er það sem ég vildi sagt hafa.

Besta frétt vikunnar að mínu mati var um hóp fólks sem gekk niður Laugaveginn í skjóli nætur með hvíta málningu og málaði yfir alla hvíta fleti sem útataðir voru í veggjakroti. Þeim óska ég gæfu og gengis í lífinu.

Hrafnhildur  

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 21:45

5 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég vil samt taka upp þykkjuna fyrir hönd eigenda fasteigna, verslana sem íbúðarhúsnæðis: Er ekki hægt að uppræta skemmdarverkin? Taggar eru ekki listaverk, ég er sammála því, og er þá ekki hægt að koma í veg fyrir krotið sem er mikið til staðbundið? Eða er það eins mikið í 104 eins og 101 eins og mér sýnist þú segja, Hrafnhildur? Það er næstum á hverju húsi við Laugaveginn og í sumum tilfellum upp undir þaki. Ég væri mjög leið ef ég þyrfti að príla utan á húsinu mínu vikulega til að hreinsa eftir aðra.

Það heimtar hins vegar enginn af mér þar sem ég á ekkert hús, ræræræ.

Berglind Steinsdóttir, 30.3.2008 kl. 22:12

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég bý í miðbænum, Hrafnhildur, og er ekki eins heppin og þú.

Ég tek undir með bestu frétt vikunnar, en því miður komu þessir ágætu menn ekki mína götu. Hér er varla búið að mála yfir veggjakrotið þegar það er komið aftur. Þetta er alveg ótrúlega þreytandi.

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.3.2008 kl. 22:56

7 identicon

En eina leiðin til að uppræta þetta er að vera duglegri að mála en krotararnir að krota.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 00:19

8 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Kannski, kannski. En ef krotararnir nást ... hvað gerist þá? Er bara sagt svei og svo bless?

Berglind Steinsdóttir, 31.3.2008 kl. 00:31

9 identicon

Ég er svo heppin að búa í fallegum, mátulega þéttbýlum og vel skipulögðum hluta af 101 en hverfið er síður en svo alls staðar þannig eins og þið hafið bent á með Laugarveg og Hverfisgötu. Verktakar hafa allt of lengi fengið að ráða öllu í borginni - þess vegna er hún ljót og illa skipulögð. Á Íslandi eru til frábærir arkitektar en þeir fá aðeins að hanna einstök, stór hús (yfirleitt opinberar byggingar) og einstaka - EINSTAKA hverfi. Hitt hafa verktakar fengið að skipuleggja en þeir virðast eiga vini í hverju horni þegar kemur að skipulagsmálum borgarinnar.

Ég er sammála ykkur í sambandi við veggjakrotið; það þarf að þrífa það strax og vera sífellt að þrífa ... en það er mjög dýrt. Ekki er alltaf hægt að mála yfir oft er mjög erfitt að þrífa. Fyrir áramót merkti einn krotarinn sér útidyrahurðina mína en hún er glærlökkuð tréhurð. Ekki hægt að mála yfir það. Húsið mitt, og mjög mörg hús í kring (sem eru eins) er öll útkrotuð þessa dagana en þau eru öll gráhraunið. Ekki hægt að mála yfir það og hægara sagt en gert að ná veggjakroti af hraunvegg, hvað þá skeljasandsveggjum eins og mörg hús í hverfinu mínu hafa. Málið er því ekki einfalt og eftirlit með ,,álitlegum veggjakrots-veggjum" þyrfti að vera meira. Ef veggjakrotarar nást ættu þeir að vera settir í þrifin og málningarvinnuna - í næstu þrjú ár.

Ásgerður (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 08:34

10 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Bara þetta, ég sá í gærkvöldi viðtal við arkitektinn Björn sem teiknaði Bryggjuhverfið. Hann hefur verið búsettur í París þar sem hver fermetri er nýttur og þess vegna skildi hann að hægt væri að byggja á sandi (hljómar undarlega en einhvern veginn svona lagði hann það út). - Vantar ekki bara nýja hugsun í allt klabbið?

Berglind Steinsdóttir, 31.3.2008 kl. 08:58

11 identicon

Júhú! ... og valdalausa verktaka!

Ásgerður (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 09:26

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Bendi áhugaömum á tvo nýjustu pistla mína um skipulagsmál. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.3.2008 kl. 10:02

13 identicon

Ég var einmitt inni á síðunni þinni áðan, Lára Hanna, og fannst mjög áhugavert að lesa pistlana þína og hlusta á Þórð Magnússon. Hann talaði af skynsemi og sýndi fallegar tillögur að uppbyggingu.

Ásgerður (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 11:11

14 identicon

1. Það er til fyrirtæki sem hreinsar veggjakrot af erfiðum flötum. Og já, það kostar.

2. Verktakar skipuleggja ekki hverfi, það gera arkitektar. Þessi setning er því beinlínis röng : "Verktakar hafa allt of lengi fengið að ráða öllu í borginni - þess vegna er hún ljót og illa skipulögð." Að hengja ljótleika og illa heppnuð skipulög um hálsin á verktökum er of mikil einföldun.

3. Að lóðarhafar eða fasteignafélög vinni skipulag er þannig lagað nýlegt fyrirbæri í skipulagssögu borgarinnar. 

4. Þegar svæði eru skipulögð þá eru þau ævinlega auglýst og þá getum við sent inn okkar athugasemdir. Það þyrftum við að gera meira af og standa vaktina. Þar gegna hverfisfélögin veigamiklu hlutverki við að vekja athygli okkar á þeim breytingum sem gera á.

5. Hér gæti ég sagt ótal margt fleira en læt staðar numið í bili.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 11:21

15 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Borgarstjórn setur þær relgur sem verktakar eiga að byggja eftir.  Vektakar fá arktitekta til að hanna hús miðað við það skipulag sem er gildandi og þar kemur allt fram hversu stórt húsið má vera og hversu mikið af byggingareitnum má vera byggður. 

Það sem er að gerast að borgarstjórn hefur ekki yfirsýn yfir það sem er að gerast og verktakar eru að kaupa hús til að láta þau skemmast til að reyna að fá samþykki að rífa húsin.  Borgarstjórn er ekki að standa sig í skipulagsmálum og því er borgin sú ljótasta sem ég hef komið í lengi.  Ég var að tala um skipulag við nokkra aðila fyrir helgi og kom þeim öllum saman um að Reykjavík væri ljót borg og ekkert í hana varið.  Borgarstjórn verður að drífa sig til að laga þetta ástands því Reykjavík ætti að vera stolt okkar þar sem hún á að heita höfuðborg landsins. 

Þórður Ingi Bjarnason, 31.3.2008 kl. 11:39

16 identicon

Ég vil svara lið 1 og 4 hjá Hrafnhildi. Liður 1: Ég veit að fyrirtæki hér í borg hreinsar veggjakrot af veggjum og hurðum og þökum. Þetta fyrirtæki hreinsaði krotið af hurðinni minni á nokkrum sekúndum og tók helling fyrir. Látum það liggja á milli hluta. Þetta sama fyrirtæki reyndi að hreinsa stórt veggjakrot af skeljasandsvegg í hverfinu mínu um nú á laugardaginn en ekkert gekk. Fyrirtækið hefur einnig átt í miklum vandræðum með að hreinsa hraunveggina á húsinu mínu og annarra í nágrenninu. Þetta er því alls ekki einfalt mál.

Liður 4: Dæmin sanna að borgaryfirvöld (eða bæjaryfirvöld annars staðar) hlusta oft ekki á raddir íbúa hverfisins. Þar hafa þeir því lítið að segja um skipulag hverfisins.

 Þórður Ingi: Heyr, heyr!

Ásgerður (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 11:54

17 identicon

Og nei, ég sagði aldrei að þetta væri einfalt mál né heldur að þetta væri alltaf hægt.

Það er frekar hlustað á háværar raddir en lágværar.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 12:04

18 identicon

Reikna með að þú sért að vísa til eigenda álitlegustu veggjakrotsveggjanna þegar þú skrifar þetta og tek heilshugar undir að:

"Málið er því ekki einfalt og eftirlit með ,,álitlegum veggjakrots-veggjum" þyrfti að vera meira."

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 12:10

19 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ef einhver færi inn á bankareikninginn minn og tæki sneið af honum vildi ég láta refsa honum ef ég næði til hans. Er þetta ekki sambærileg eyðilegging? Bara dálítið erfiðara að góma krotarann, yfirleitt.

Nógu andskotalegt er að þurfa að vera með eftirlit.

Berglind Steinsdóttir, 31.3.2008 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband