Gildin sem manni eru kennd í grunnskólum

Ég lærði ógrynni í grunnskóla sem nýtist mér vel í dag, tungumál, útreikninga, vélritun, rithátt. Ég man fæst til að nefna það, man samt þegar ég féll í þá gildru á prófi að leggja sögnina að má út sem mega (nafnháttarmerkið var ekki með) og beygði þannig ranglega, man þegar ég gleymdi einu 0 á kristnifræðiprófi og sagði að kristnitakan hefði orðið árið 100 en man annars næstum ekkert af einstökum lærdómsatriðum. Ég vona að það sé sossum eðlilegt.

Það er aðallega tvennt sem ég man gjörla.

Ragnheiður Finnsdóttir var umsjónarkennarinn minn í 9. bekk og kenndi mér íslensku. Við skrifuðum ritgerðir og þær allar annað hvort með penna eða á ritvél. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég skrifaði um William Heinesen og lagði mikið á mig að hafa mynd af honum í ritgerðinni sem ég þurfti ljósrita (myndina), klippa og líma og ljósrita svo aftur áður en ég byrjaði að vélrita á síðuna. Ragnheiður kenndi a.m.k. mér í eitt skipti fyrir öll að ritgerð verður að vera manns sjálfs. Ef maður ætlaði að nota texta annars varð hann að vera í gæsalöppum og með tilvísunum og tilvísanirnar urðu að vera svo skýrar að hægt væri að finna heimildina. Ég gerði aldrei neitt öðruvísi, mér er bara minnisstæð innlögnin. Síðan hef ég skrifað fjölmargar ritgerðir og kennt ritgerðasmíð í framhaldsskólum, alltaf með þessari áherslu. Það er t.d. rosalega leiðinlegt að taka saman heimildaskrá, finnst mér, þannig að það er brýnt að skrifa hana jafnóðum og hafa samræmi í henni.

Sigfús Halldórsson tónskáld kenndi mér teikningu. Ég lærði aldrei neitt að teikna enda bæði hæfileikalaus og ekki síður gargandi áhugalaus um teikningar og þrívídd. Púff. Þetta ristir enn svo djúpt að þegar ég fæ póstkort skoða ég varla bakhliðina, les bara textann. Sigfús arkaði fram og aftur stofuna og sagði okkur að hann hefði sama sem gengið til Þingvalla í svo og svo mörgum kennslustundum. Það sem hann kenndi mér þó öðrum fremur var að greina á milli hugmyndanna um veikindi og lasleika. Þegar hann las upp nemanda og annar nemandi kvað hann veikan sagði Sigfús: Já, er hann á spítala? Kannski er þetta harðneskjulegt (og kannski gerðist þetta bara einu sinni) en ég held að fólk hafi haft og hafi enn tilhneigingu til að kalla vægasta hóstakjöltur veikindi.

Úr 10 ára grunnskólagöngu man ég ekki mörg önnur einstök lærdómsatriði (nema að vísu þegar Lárus kenndi mér algebru og hún kikkaði fyrirvaralaust inn um jólin þótt Lárus væri víðs fjarri og svo þegar Guðrún Svava leiðrétti hjá mér þegar ég hafði skrifað í stíl að klukkan væri 20 mínútur í átta - hún leiðrétti að hana hefði vantað 20 mínútur og síðan hef ég aldrei getað sagt það öðruvísi).

Jæja, þetta var aldeilis persónulegt á sunnudagsmorgni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég get tekið undir þetta með þér. Margt af því sem maður lærði í grunnskóla situr undarlega fast í minninu. Ég man til að mynda enn flest ljóðin sem ég lærði utan að úr Skólaljóðunum þótt Bjössi litli á Bergi sé orðinn frekar gloppóttur.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.4.2008 kl. 19:46

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, lengi býr að fyrstu gerð. Samt er ég búin að gleyma bæði Gunnarshólma og Skúlaskeiði. Andsk.

Berglind Steinsdóttir, 6.4.2008 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband