Sunnudagur, 13. apríl 2008
Hið meinta atvinnuleysi framundan
Hvað byrjar fólk að skera niður í hugsanlegri kreppu? Hvar missir fólk vinnuna? Ég giska á að nú leiti ýmsir fasteignaráðgjafar að annarri vinnu en margir þeirra hljóta að búa að digru árunum þegar þeir tóku fulla þóknun þótt vinnuálagið við marga söluna hljóti að hafa verið lítið og vinnan nánast áreynslulaus. Menningarlíf blómstrar oft þegar harðnar á dalnum þannig að ég hugsa að listamenn þurfi ekki að kvarta.
Ef ég þyrfti að skera niður munað myndi ég trúlega byrja á hárgreiðslustofunni og veitingastöðunum, kannski líka nautnanuddinu. Er ekki fullmikið að borga 5.500 kr. fyrir klippingu sem tekur korter? Enn frekar þegar næsti kúnni stendur á línunni og bíður eftir að komast í stólinni? Og klipping og strípur á 15.000? Ef kúnninn fer fjórum sinnum á ári er hægt að spara 60.000, a.m.k. 30.000 ef hann fer annars í annað hvert skipti.
Frænka mín ein sem fermist á næsta ári var á leið í ljós nýlega. Ég rak upp stór augu, hélt í alvörunni að ljósabekkir heyrðu sögunni til. Hverfa þeir þá ekki a.m.k. í hallærinu?
Vinafólk fór nýlega með 20.000 kr. gjafakort á veitingastað í miðbæinn. Hún dæsti áður en þau fóru af stað og hafði áhyggjur af að þau gætu aldrei klárað inneignina. Það endaði hins vegar með að þau borguðu aukalega nokkra þúsundkalla. Er eðlilegt að magafylli kosti vel yfir 10.000 á mann á skikkanlegum veitingastað á laugardagskvöldi? Óhjákvæmilegt? Mun sá staður pluma sig í hallærinu framundan?
Er hægt að sleppa utanlandsferðum í þrengingum? Stórum jeppum, hjólhýsum? Mun starfsfólk í þessum geirum annars kveðja starfið sitt? Hvert fer það þá?
Mikið væri gaman ef óháður fjölmiðill velti þessu fyrir sér. Annars hef ég 0 trú á spádómum fólks sem hefur hagsmuna að gæta. Spádómar um mannlega breytni hafa ekki forspárgildi, þeir hafa áhrif!
Athugasemdir
Fínn pistill, Berglind. Já, það er örugglega hægt að spara eitt og annað án þess að það bitni að ráði á lífsgæðum fólks.
Þórir Kjartansson, 13.4.2008 kl. 09:51
En Þórir, þú og ég veltum samt fyrir okkur afkomu ferðaþjónustufyrirtækjanna sem hafa ekkert til saka unnið. Reyndar var ég áðan líka að hugsa um að giska á að við Íslendingar komum til með að rápa meira heima fyrir en venjulega. Það er ekki leiðinlegt að rápa um Vík og niður í fjöru!
Berglind Steinsdóttir, 13.4.2008 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.