Fimmtudagur, 17. apríl 2008
Sjónvarpsfréttaviðtölin við mig
Athyglisþörf minni var rækilega svalað á leið minni upp Bankastrætið í dag. Meintir útlenskir sjónvarpsmenn þóttust vilja taka við mig viðtal. Ég hef fyrir reglu að segja ekki nei ef ég get sagt já þannig að þegar þeir spurðu hvort þeir mættu spyrja mig út í viðhorf mitt til vöruverðs á Íslandi sagði ég auðvitað já. Þá sagði spyrillinn líka svo róandi að stöðin hefði ekki nema 600.000 manna áhorf (allt fólk sem maður þekkir ekki).
Ég hélt að þeir væru að atast í mér þegar viðtalið var hálfnað (búin hálf mínúta) þannig að mér hefur sennilega tekist að eyðileggja möguleika mína á að birtast í finnska sjónvarpinu. Annars hefði ég verið Íslendingurinn sem kvartaði ekki yfir afkomunni.
Mér finnst ekkert leiðinlegt að verða af heimsfrægðinni. Leiðinlegra þykir mér alltaf að viðtalið sem Logi Bergmann tók við mig árið 1997 fyrir RÚV var aldrei birt. Það var um hinn merkilega miðbæ Reykjavíkur og umgengni um hann á næturnar.
Athugasemdir
Þú ert semsagt sjónvarpsstjarna í felum!
Lára Hanna Einarsdóttir, 17.4.2008 kl. 22:42
Bíddu, ég skil ekki. Hvernig eyðilagðirðu möguleika þína á að koma í sjónvarpi? Hvað sagðirðu svona slæmt?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.4.2008 kl. 23:46
Í miðju (ágætu) svari á ensku fékk ég allt í einu þessa aðkenningu að þetta væru bara Íslendingar að fíflast og spurði: Eruð þið kannski Íslendingar að gera at? Og þeir litu út eins og þeir skildu ekki neitt, sennilega af því að þeir eru Finnar. Ég efast um að þetta komi vel út ... sko.
Og Lára Hanna, í felum? Nei, sko, ég man allt í einu eftir viðtali sem Stöð 2 tók og birti (í fréttatíma). Þá var ég hvorki meira né minna en formaður Félags leiðsögumanna og hafði áhyggjur af námskránni. Ég fékk bara eitt tækifæri til að mismæla mig í gegnum allar mínar göfugu meiningar og held að ég eigi upptökuna ekki lengur. Hehe.
Berglind Steinsdóttir, 18.4.2008 kl. 07:26
Ég hef nú átt mínar 10 mínútur af frægð í sjónvarpi og ótrúlegasta fólk man eftir því ennþá, rúmum 10 árum síðar. Eins gott að það er ekki hægt að gúggla þessum viðtölum.
Habbs
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 09:30
Varstu þá ekki einmitt trúnaðarmaður Landmælinga? Ógleymanlegt ...
Berglind Steinsdóttir, 18.4.2008 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.