Er samúð mín með leigubílstjórum illskiljanleg?

Ég fékk far með leigubíl í annað sveitarfélag í vikunni. Það kostaði alveg um 3.000 krónur og mér ofbauð ekki. Auðvitað er það peningur að reiða fram, en hvað fær maður í staðinn? Ég hringi og fimm mínútum síðar rennur heitur bíllinn að húsinu, við tekur forvitnilegt spjall um þjóðmálin, á áfangastað þarf maður ekki að finna stæði - og maður borgar ekki 1.000.000 krónur á ári í rekstrarkostnað. Leigubílstjórinn borgar hins vegar síhækkandi eldsneytisverð, fastan rekstrarkostnað eins og tryggingar og afborganir ef bíllinn er keyptur á lánum, annars þarf hann auðvitað að staðgreiða dobíu.

Leigubílstjórinn sagðist vera hissa á hvað fólk áttaði sig ekki á þessu. Að vísu keyrir hann oft gamalt fólk (fastakúnna) í búðir og líka í flug, en langtum fleira fólk velur að eiga eigin bíl og jafnvel tvo eða þrjá frekar en einn. Bíleigendur borga fyrir bílinn, tryggingar, bensín, viðgerðir, þurfa að skafa á köldum vetrardögum, lenda í bilunum og e.t.v. fleira.

Í staðinn gætu margir sleppt bílnum (eða aukabílnum), notað strætó, hjólið og postulana. Kenning mín er sú að ef fólk fer á leigubíl á virkum degi haldi það að aðrir haldi að það eigi enga fjölskyldu eða vini sem nenna að keyra það milli hverfa.

Huhh.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Umhugsunarvert.

Steingerður Steinarsdóttir, 20.4.2008 kl. 18:31

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þú hleypur nú um allar trissur með hundinn þinn og þér yrði varla skotaskuld úr að skokka í og úr vinnu ... hmm.

Berglind Steinsdóttir, 20.4.2008 kl. 21:53

3 identicon

Þetta hef ég lengi sagt - fólk á allt of marga bíla á Íslandi og notar þá allt of mikið.

Þegar ég var í MS reiknaði stærðfræðikennarinn minn það út að það væri mun, MUN ódýrar að eiga engan bíl, taka strætó við og við, leigubíl þegar það var ekki hægt og svo hjól þegar vel viðraði og maður nennti (ég held að hann hafi ekki gert ráð fyrir mörgum dögum á hjóli). Hann reiknaði líka inn í þetta kostnaðinn við að taka bílaleigubíl nokkrum sinnum á ári, t.d. þegar farið væri í ferðalag eða eitthvað annað sem gerði bílinn nauðsynlegan. Öll þessi þægindi kostuðu miklu minna en að eiga og reka bíl ... og þetta er nú svo langt síðan að bensínið þótti nú ekkert sértaklega dýrt.

Fleiri hafa reiknað þetta út, lifa samkvæmt þessum útreikningum og birt niðurstöður sínar í blöðum. Samt trúir fólk þeim ekki og losar sig ekki við bílinn/bíl nr. 2/nr. 3.

...þessu trúir fólk ekki en trúir svo öllu sem vellur upp úr stjórnmálamönnum úr ákveðnum flokki!

Ásgerður (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 09:31

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þetta var annars skemmtilegur leigubílstjóri og vel tækjum búinn. Hann var með fínt pínulítið sjónvarp við hliðina á mælaborðinu. Ég spurði - og fannst ég frekar framúrstefnuleg - hvort hann næði kannski netinu á skjáinn líka. Nei, reyndar ekki, en hann hafði þvílíkt reynt. Hann er hjá Símanum og vildi fá heitan reit í bílinn og svona 10 metra radíus, fólk þyrfti bara að fá lykilorð hjá honum til að komast á netið. Og það sætti Síminn sig ekki við. Því er hann ekki með netið í bílnum.

Bróðir minn sagði mér hins vegar síðar í vikunni að það væri giska algengt að leigubílar væru með netið. Ja, hérna. Og fólk heldur áfram að eiga sína eigin netlausu bíla sem það þarf að borga formúu fyrir, setjast inn í kalda - og skafa á köldum vetrardögum. Ussj.

Berglind Steinsdóttir, 21.4.2008 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband