Sunnudagur, 11. maí 2008
Hvenær er maður spilltur og hvenær er maður ekki spilltur?
Nú væri ekki ónýtt að hafa Jón Hreggviðsson á línunni. En það er ekki í kot vísað hjá Láru Hönnu sem spjallar um mögulega og raunverulega spillingu og innanmein í stjórnsýslunni. Ég reyndi að setja athugasemd hjá henni í tvígang en einhver máttarvöld tóku í taumana og þurrkuðu hana út. Og þótt hvítasunnan sé í dag dettur mér ekki í hug að það sé þetta guð, frekar að það væri mamma þar sem mæðradagurinn er líka í dag. Vald hennar yfir tækninni er þó ekki nægt og svo er hún ekki svona afskiptasöm.
Þegar menn tala um spillingu, óvandvirkni, embættisglöp, ótrúverðugleika og þess háttar verður mér alltaf fyrst fyrir að skoða sjálfa mig. Mér þykja það heilbrigðar efasemdir. Ég hef fjórum sinnum fengið dagpeninga vegna vinnu minnar. Í öllum tilfellum gerðu þeir meira en að dekka útlagðan kostnað. Ef ég hefði hins vegar ákveðið að taka leigubíl fyrir hvert skref, sofa í forsetasvítunni og éta önd í morgunmat, humar í hádeginu og sérpantaða engisprettu í kvöldmat hefði ég þurft að borga með mér. Ég hef svo sem ekkert gáð að skilgreiningu dagpeninga en ég hef haldið að þeir ættu að dekka útlagðan kostnað og bæta manni í einhverju tilliti fjarveru frá heimili, bæta manni að maður getur ekki notað lausa tímann á kvöldin til að setja í þvottavél, fara í sund, horfa á uppáhaldsþáttinn í sjónvarpinu, faðma börnin og svo sofa í eigin rúmi. Og auðvitað er erfitt að setja verðmiða á þetta.
Ég skammast mín sem sagt ekki fyrir dagpeninga sem ég hef þegið.
Ég hringi prívatsímtöl úr vinnusímanum. Ég á það til að hringja vinnusímtöl úr heimasímanum, miklu sjaldnar auðvitað enda er ég ekki það mikið heima á vinnutíma - eins og gefur að skilja.
Ég hef slórað í vinnunni en ég hef líka sleppt matartímum og hamast fram á kvöld án þess að fá aukalega greitt.
Mér finnst mikilvægt að það sé sveigjanleiki í vinnu, að vinnuþegi treysti manni og að maður sé traustsins verður. Sveigjanleikinn og gagnvirknin verða auðvitað að virka í báðar áttir.
Ég held að ég sé ekki spillt, misnoti ekki hugsanlega aðstöðu mína og gangi ekki á lagið en ég er ekki hvítskúruð.
Nú þegar borgarstjóri hefur boðað að hann muni láta fara ofan í saumana á ferðalögum og dagpeningum borgarfulltrúa fæ ég strax þessar (heilbrigðu) efasemdir. Alla hluti þarf að skoða í samhengi og það er ferlega auðvelt að benda á einn hlut og hneykslast yfir honum, að einhver hafi farið eitthvað og árangurinn hafi enginn orðið en borgarfulltrúinn kostað heilmikið. Ég þekki ekkert til og get engin dæmi nefnt, en ég er þeirrar trúar að tengsl sem komast á í svona ferðum þar sem menn hitta sína líka geti orðið gagnleg.
Kennarar og leikskólakennarar sem eru því miður ekki ofhaldnir í launum hafa sumir hverjir, sem betur fer, farið í skoðunarferðir til að kynnast sambærilegri starfsemi í öðrum löndum og þótt stundum sé erfitt að benda á áþreifanlegan ávinning, síst af öllu kannski fljótlega eftir heimkomu, heldur þetta hugsuninni á hreyfingu. Og það er helvíti brýnt.
Mér blöskrar ekki að borgarfulltrúar sem taka vinnuna sína alvarlega og vinna að hagsmunum borgarbúa, hagsmunum við skipulagningu, umhverfismál, leikskóla, félagsþjónustu, íþróttir, tómstundir, gatnagerð o.s.frv., fái 660 þúsund á mánuði ef það er talan. Mér blöskrar hins vegar ef borgarfulltrúar tala mikinn um hvað þeir séu vammlausir og fara síðan út að ystu mörkum - ef einhver skyldi gera sig sekan um það.
Og mér blöskrar að einhver sé með undir 200 þúsund krónum á mánuði í brúttólaun fyrir fulla vinnu þegar verðlag er orðið eins og dæmin sanna.
Hver vill og getur breytt því?
Athugasemdir
Ég skil ekki hvað plagar athugasemdakerfið stundum. Ég fæ tölvupóst þegar einhver setur inn athugasemd hjá mér en hef ekki fengið tölvupóst um að þú hafir gert það - enda fór þín greinilega ekki inn.
En ég hef fengið tölvupóst um athugasemdir frá öðrum - sem birtast svo aldrei í athugasemdakerfinu. Þetta virðist vera einhver galli hjá blog.is og ég ætti kannski að láta þá vita af þessu. Mjög dularfullt.
Annars er pælingin í pistlinum þínum góð og þörf og ekki eru nú allir þess umkomnir að byrja á sjálfum sér og líta í eigin barm, því miður.
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.5.2008 kl. 16:45
flott
Margrét Einarsdóttir (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 12:43
Flott færsla hjá þér Berglind mín.
Steingerður Steinarsdóttir, 12.5.2008 kl. 13:21
Stelpur, ef ég á að vera alveg hreinskilin finnst mér ég hafa verið aðeins of sjálfmiðuð hér. Ég ætlaði að hugsa langtum lengra og er að pæla í fiskveiðistjórnuninni, mannréttindum, umhverfismálum, hver nýtur vafans, hver græðir og hver tapar. Stundum hugsar maður meira í hljóði. En þið eruð næs við mig, takk fyrir það.
Berglind Steinsdóttir, 12.5.2008 kl. 13:48
Bíð spennt eftir því að þú útvíkkir sjónarhornið - allir græða og allir tapa, bara mismikið/lítið.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.