Sunnudagur, 18. maí 2008
Fullkomnunarárátta er bögg
Stundum er hægt að skipuleggja hlutina út í hörgul og hafa fullkomna stjórn á öllu og öllum. Stundum er stjórnin ekki öll í manns eigin höndum og það eina sem maður getur gert er að láta vel að stjórn annarra (og svo stýra laumulega ef maður er svoleiðis innstilltur).
Ég er t.d. að tala um leiðsögn. Þegar hópstjórar halda eftir tveggja tíma dvöl á landinu að þeir viti betur hversu langan tíma tekur að komast á milli staða, gleyma að reikna með tímanum sem tekur fólk að klifra út úr bílunum, og inn aftur eftir stoppin, vita ekki um færðina á drullulegum malarvegum o.s.frv. á ég ekki í sérlega miklum erfiðleikum með að leyfa þeim að ráða (eða leyfa þeim að halda að þau hafi ráðið). Ég leyfi þeim að skammast, horfi bara nikkandi á og svo seinkar okkur kannski um klukkutíma.
Samt er erfitt að þjóna mörgum herrum. Hver borgar t.d. aukatíma 30 jeppa? Kvöldmatur er bókaður á einhverjum ákveðnum tíma. Er það hópstjórinn afskiptasami sem borgar muninn, eða hvar kemur hann niður?
Kannski þarf ég að breyta um taktík og vera frekari við afskiptasama hópstjóra - en hingað til hefur enginn dáið, enginn slasast og ég veit ekki til þess að neinn hafi farið fram á endurgreiðslu ferðar.
Það er svo mikið bögg að trúa því að allt geti alltaf verið 100%. Einn farþegi dásamar kannski sögurnar sem maður segir en sessunauturinn fussar yfir lyginni. Einum getur þótt krúttlegt að heyra mismæli og hvernig maður bögglar stundum út úr sér setningunum en öðrum misboðið að tungumál manns sé ekki óaðfinnanlegt. Einn vill meiri jarðfræði, annar meiri sagnfræði, sá þriðji minna af öllu. Ég held að maður verði bara að standa með sjálfum sér og sætta sig við að maður er gallaður.Fullkomnunarárátta er nefnilega svo mikið bögg, þá er maður aldrei ánægður og lífið allt tóm óhamingja. Ég átti það skeið. Og þegar maður er leiðsögumaður á maður mikið undir öðrum líka og ef maður er hæfilega afslappaður má maður eiga von á góðu.
Það finnst mér - að svo komnu máli. Ætla að spekúlera í þessu (og vona að Habbý heimti ekki frekari útfærslu ...).
Athugasemdir
Mikið hefurðu rétt fyrir þér hérna. Og þú virðist hafa rétta hugarfarið til að takast á við þetta.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.5.2008 kl. 16:56
Ég fæ nú ennþá samviskubit, bara sjaldnar en áður, veit að ég hef gert mitt besta og þá sef ég tiltölulega róleg.
Berglind Steinsdóttir, 18.5.2008 kl. 20:26
Déskoti sem þessi helgi var samt skemmtileg þrátt fyrir smá oggopínulitla stjórnsemi einstakra hópstjóra ;)
Kv. Örvar
Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 10:11
Jahhá, fliss. Láttu Matta bóka þig um miðjan júní, 12.-15., í flúðasiglingu, hesta o.fl.
Berglind Steinsdóttir, 19.5.2008 kl. 16:51
Hey, komið þið flissið svo til Vancouver í sumar?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.5.2008 kl. 20:07
En fyndið, ég var að skrifa sambærilegt á þína síðu. Ég efast um að það verði í sumar, en myndirar voru GLÆSILEGAR.
Berglind Steinsdóttir, 19.5.2008 kl. 20:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.