,,Í dýflissuna með hann"

Þetta er ekki innlegg í heitustu umræður vikunnar, um útlendinga. Sjálf hef ég engan áhuga á að varpa neinum í dýflissu og enn síður langan mig oní hana sjálfa. Hugleiðing mín varðar eingöngu framburð orðsins.

Þetta orð er afskaplega sjaldgæft og mig grunar að þess vegna beri fólk það fram með f-hljóði, eins og heyra má í nýjustu símaauglýsingu Jóns Gnarrs. Þorsteinn Bachmann hrópar orðin í fyrirsögninni, og með skýru effi.

F-ið hljómar hins vegar eins og b í þessari stafarunu, sbr. mörg dæmi: trufla, tefla, tafl, afla, efla, vöflur, tafla, geifla, gafl ... Ég þekki eina manneskju sem ber þessi orð fram með f-hljóði, hinar íslensku þúsundirnar með b.

Í dý-flissuna með hann er því villa - eða hvað segir Ásgerður?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

dýblissa, alveg pottþétt.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.5.2008 kl. 01:19

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Auðvitað átti ég ekki síður að varpa spurningunni til þín, Stína, enda veistu þínu viti.

Berglind Steinsdóttir, 22.5.2008 kl. 07:24

3 identicon

Best að svara þessu fyrst spurningunni er beint til mín.

Ég hef alltaf sagt dýflissa og ekkert hugsað um hin orðin (efla, tafl) sem ég myndi aldrei bera fram með f-hljóði. Ég gerði óformlega könnun á vinnustaðnum (þar sem er aðeins einn íslenskufræðingur fyrir utan mig - það skal tekið fram) og allir nema einn (sem sagt 9 af 10) báru orðið fram með f-hljóði. Þessi eini var ekki íslenskufræðingurinn. Hins vegar fór ég beint inn á Málfarsbanka Íslenskrar málstöðvar þegar ég sá færsluna þína, Berglind mín, og hann segir að orðið sé borið fram með -bl- ... og ég beygi mig undir það sem þar stendur og mun hér eftir bera dýflissa fram með bl-hljóði. Hins vegar eru tveir á skrifstofunni sem ætla að hætta nota orðið vegna þessarar nýju uppgötvunar minnar á framburðinum!

Ásgerður (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 08:58

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

En hversu oft notuðu þeir orðið áður en þessi römmu tíðindi voru þeim flutt, hehe?

Berglind Steinsdóttir, 22.5.2008 kl. 10:11

5 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Sammála samstarfsmönnum Ásgerðar. Finnst orðið dýblissa hreinlega skelfilegt. Þetta er svipað og að segja framhald með löngu emmi í staðinn fyrir frammhald.

Steingerður Steinarsdóttir, 22.5.2008 kl. 10:12

6 identicon

Sá áðan merkingu aftan á vinnugalla manns :

 Rask-at, pípulagningaþjónusta.

 Það gleður mig þegar fólk sem er með rekstur er með húmor

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 11:27

7 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Og er píparinn líka krútt (les: rassgat)?

Berglind Steinsdóttir, 22.5.2008 kl. 11:43

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

En hvað segið þið þá um sagnorðið "að flissa" til dæmis? Á þá að segja: "Maðurinn hristist af kátínu og fór síðan að blissa upphátt". Eða á þetta bara við um -fl- þegar það er inni í miðju orði? Er dýflissa þá ekki borið fram með f-i af því þetta er samsett orð dý-flissa?

Hvarflar ekki að mér að segja dýblissa - hljómar skelfilega. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.5.2008 kl. 15:08

9 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Sona sona, þetta er bara óvani.

Og úr allt annarri átt, einu sinni var Íslendingur að tala á ensku við Kínverja um framkvæmdarvaldið. Íslendingurinn þrástagaðist á orðunum executive power - en var með skýra áherslu á fyrsta atkvæði (eins og góðum og gegnum Íslendingi sæmir) í fyrra orðinu. Fyrir vikið er hætt við að Kínverjinn hafi haldið að Íslendingurinn væri að dásama líflátsvaldið.

Það var bara þetta með framburðinn, ræræræ.

Berglind Steinsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:33

10 identicon

Þetta eru orð í tíma töluð, eða þannig. Sama gildir til dæmis um orðin fífl og Keflavík. Dýflissa er líklega ekki samsett orð en það hefði réttlætt f-framburð. Orðsifjabókin er með dularfulla skýringu, sem hjálpar lítið en þetta er allavega tökuorð. Sjálfur hef ég heyrt ýmist bl eða fl, en mig grunar að þetta sé sama sagan og þegar fólk er að reyna að vanda sig og tala skýrt og helst eins og skrifað er. Þess vegna heyrist alltaf í fjölmiðlum - unum í ákv. gr. flt., í staðinn fyrir -onum sem er málvenja og réttara. Til dæmis á að segja "hestonum", körlonum, kálfonum, kerlingonum, hundonum og köttunum. Að sama skapi er allt í vitleysu í bönkunum, en réttara er eiginlega að segja böinkonum. Nema kannski Jón Baldvin, hann má segja bönkonum af því að hann segir jú líka banki en ekki bánki eins og allir. Það er ekki allt rétt bara af því að það stendur skrifað einhversstaðar.

Hermann (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 23:46

11 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Prrrr, Hermann, þú hefur unnið heimavinnuna vel. Þetta er tegund ofvöndunar. Kannski eins og ef menn bæru skýrt fram h-ið í eldhús.

Berglind Steinsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband