Fimmtudagur, 22. maí 2008
Þeir sem láta sér júróvisjón í léttu rúmi liggja
Sú var tíðin að ég missti ógjarnan af júróvisjón. Þegar ég var au pair í Þýskalandi 1987 horfði ég á Hægt og hljótt í engum félagsskap. Öllum í Bayern virtist a.m.k. standa slétt á sama um keppnina. Ég man þegar Sandra Kim söng J'aime j'aime la vie 1986. Hún vann víst.
Síðan hlýt ég að hafa elst illa. Ég tolli engan veginn við þetta nú orðið þrátt fyrir gríðarlegan áhuga víða í kringum mig. Svo sá ég þegar ég hjólaði milli hverfa upp úr kl. sjö í kvöld að svipuðum er innanbrjósts og mér, alltént var röðin út á götu við pítsustaðinn í Skúlagötunni. Nema tilboðið hafi bara haft vinninginn.
Athugasemdir
Hin fjaskenndu Bergmálstíðindi voru með beina lýsingu og hún nægði mér fullkomlega.
Lára Hanna Einarsdóttir, 22.5.2008 kl. 22:28
Ég átta mig ekki á hvort þú ert að hrósa Brjáni eða ekki. Ég held samt að þú hljótir að meina vel.
Berglind Steinsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:25
Ég er að hrósa Brjáni, mér líka húmorinn hans vel.
Lára Hanna Einarsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:30
Já, ég get tekið undir það.
Berglind Steinsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:34
Ég sá nokkur lög á netinu. Það er í fyrsta skipti í níu ár sem ég hef séð þetta. Annars fannst mér alltaf stigagjöfin sjálf skemmtilegust.
Ætla ekki að horfa á laugardaginn. Ekki af því að ég er fúll á móti eða neitt svoleiðis og ég hefði ábyggilega horft ef ég hefði ekkert betra að gera. En mér var boðið í sjóferð á seglskútu og af því að ég hef ekki siglt síðan ég var með Martin Gatineaubúa hér um árið þá ætla ég að slá til.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:35
Og verður örugglega ekki svikin af því. Ég öfunda þig, sit sjálf uppi með frumkvæðislaust eigið partí ... úps. Nei annars, það er alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk - þótt tilefnið sé hégómlegt.
Berglind Steinsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:47
Ég kýs að horfa fram hjá síðustu færslu frá þér, Berglind!
Annars man ég ekki betur en þér hafi ekki þótt leiðinlegt í evróvisjón-partýinu hjá mér hér um árið.
Ég hef heyrt svo marga fyrirlestra um lágmenningu þessarar keppni heima hjá mér að ég læt þetta allt sem vind um eyru þjóta en minni á að það verður að horfa á keppnina með húmorinn í hæstum hæðum.
Hins vegar skal ég alveg viðurkenna að ef mér yrði boðið í siglingu á seglskútu eða jafnvel bara í hvalaskoðunarferð um Faxaflóa á sama tíma og keppnin væri myndi ég skella mér í sjógallann og fletta svo bara úrslitunum upp á netinu.
Ásgerður (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 08:41
Einmitt! Ég hef enn ekki hitt þá þjóð sem hefur jafn mikinn áhuga á evróvisjón og við. Kenning okkar hjóna í því sambandi er þessi: Íslendingar fóru að horfa á keppnina löngu áður en þeir hófu að taka þátt sjálfir. Sjónvarpið í þá daga var ekki upp á marga fiska og eiginlega fátt á dagskrá. Þess vegna var svona glamúr-hátíð í útlöndum kærkomin tilbreyting. Svo fórum við að taka þátt sjálf og þá varð enn þá skemmtilegra að horfa á - hlusta á íslensku í útlöndum. Síðan ... er ekki aftur snúið. Það er í blóðinu að horfa á keppnina ... hjá flestum (nema útþynntu Svía-blóði eins og ég bý með!)
Ásgerður (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 08:48
Rétt hjá þér, Ásgerður, mér á ekki eftir að leiðast annað kvöld. Þetta er spurning um hugarfar, hmmmm ...
Berglind Steinsdóttir, 23.5.2008 kl. 19:11
Hef verið Eurovisionaðdáandi síðan ég sá Abba sigra hér um árið, þá var ég 5 ára. Mun mæta í frumkvæðislaust partý Berglindar af alvöru þótt hún muni húka frammi í eldhúsi. Hlakka til!
Lurlene (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 19:38
Téhé, hehe, tíhí, múhahhha, ég hlakka líka til og mun ekki láta setja mig af í eldhúsinu. Ryksaug áðan gangteppið (jájá, reyndu bara að sjá það fyrir þér) og hnikaði til bók. ALLT það til undirbúnings komu gestanna.
Berglind Steinsdóttir, 23.5.2008 kl. 20:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.