Föstudagur, 23. maí 2008
Eiga próf að vera skemmtileg?
Það stappaði nærri sennu milli mín og ókunnugrar í dag - um próf. Henni fannst að próf ættu að vera skemmtileg. Ég sagðist ekki sammála því, sagði að próf ættu að vera mælitæki. Ef við hefðum þekkst hefðum við sennilega farið í hár saman.
Í prófi eiga að vera léttar spurningar og í prófi eiga að vera erfiðar spurningar. Það má deila um hlutfallið. Þau sem lítið vita þurfa samt að geta svarað einhverju, þau sem mjög mikið vita þurfa að fá að láta ljós sitt skína.
Ef verið er að prófa í gamanleik eru aðrar kröfur en þegar verið er að prófa í ökuleikni.
Það er ekki til vansa að finnast gaman í prófi, rétt eins og það er kostur að finnast gaman að mæta í vinnuna. Mér þætti samt gagnrýni á t.d. mig um að próf hefði verið leiðinlegt hégómleg gagnrýni. En umræðan snerist ekki einu sinni um mig.
Ég myndi heldur ekki biðja um að próf væri leiðinlegt, ég myndi vilja hafa próf sanngjarnt.
Ætli hún hafi gert þá kröfu til sjálfrar sín að svörin væru skemmtileg?
Athugasemdir
Próf eiga alltaf að vera skemmtileg! Svörin reyndar líka. Ég bjó alltaf til skemmtileg próf (fannst mér, þó svo að nemendum hafi ekki alltaf verið skemmt) og alltaf bjóst ég við skemmtilegum svörum.
Jú, jú, próf eru og eiga að vera mælitæki, mikið rétt. En þurfa mælitæki að vera leiðinleg bara af því að þau eru mælitæki? Mega nemendur ekki gera kröfu um skemmtileg mælitæki á getu sína? Og er kennurum nokkuð of gott að skemmta sér við gerð þessara mælitækja? Ég skemmti mér alltaf konunglega þegar ég var að semja prófin (þótt það brygði til beggja vona með nemendur þegar þeir sáu prófin) og gat varla beðið eftir að leggja þau fyrir.
Svona er ég nú innréttaður.
JRK
JRK (IP-tala skráð) 25.5.2008 kl. 02:37
Já, en skemmtilegur/leiðinlegur er nú einstaklega huglægur mælikvarði - eins og þú sannar einmitt með orðum þínum! Umrætt próf var í leiðsögn og henni fannst svona óskaplega leiðinlegt að þurfa að svara 25% spurningu um skattamál, spurði m.a.s.: Hvaða ferðamaður vill vita um skattamál? Við aðrar tvær litum hvor á aðra og sögðum: Einhver í hverjum einasta hópi. Mér gæti þótt gaman að svara svona spurningu en henni leiðinlegt. Hvort var þá prófið skemmtilegt eða leiðinlegt?
Ef hins vegar hefði aldrei verið talað um skattamál í kennslunni væri spurningin ekki sanngjörn, óumdeilanlega, og þá þætti mér prófið gallað.
Krafan um skemmtileg próf er ósanngjörn, ég fer ekki ofan af því. Jóhann minn, ég er ekki einu sinni viss um að þú sért svona innréttaður - og hananú.
Berglind Steinsdóttir, 26.5.2008 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.