Sunnudagur, 15. júní 2008
Heilbrigðar efasemdir um sjálfan sig
Ég hef einu sinni kviðið fyrir hvataferð. Það var sumarið 2003 og ég reyndist hafa góða ástæðu til þess. Þá vildi einn af hópstjórunum fá að tala við mig fyrirfram og hringdi frá Þýskalandi með fyrirmæli um að segja frá hinu og þessu, segja skemmtilegar sögur af víkingum, fara nákvæmlega yfir plötuskilin, hvaða kvikmyndir hefðu verið teknar upp hér á landi og ýmislegt annað sem ég man ekki lengur. Hann bað mig að lesa vel spurningalista sem hópurinn átti að fá - og svara síðustu 10 spurningunum eða svo. Samtals voru þær um 60. Að auki var ég beðin um að þýða matseðilinn yfir á íslensku! Þá sagði ég hingað og ekki lengra, matseðillinn er þýddur úr íslensku yfir á þýsku þannig að ferðaskrifstofan hlýtur að eiga hann á íslensku, sagði ég.
Ég tala alveg bærilega þýsku, takk, á misgóða daga svo sem og stundum finnst mér ég alveg einstaklega vitlaus í þýsku. Það er aðallega þegar búið er að pönkast á vitsmunum mínum alveg botnlaust.
Þessi hvataferð fyrir fimm árum hefði getað heppnast alveg einstaklega vel. Veðrið var frábært, ekkert minna þá daga. Við gistum í Hveragerði þannig að við spöruðum akstur fram og til baka aftur og aftur. Ég byrjaði í morgunmatnum á að svara spurningum eins og í venjulegri hringferð og þurfti að dansa með fram yfir miðnætti.
Það þóttu mér nokkuð langir dagar.
Hópstjórinn var ein fimm kvenna í hópnum og fann að öllu. Hún skammaðist yfir einu skýi. Hún skammaðist yfir að fleira fólk væri á Markarfljóti í flúðasiglingum þótt við værum tveimur tímum of sein af því að fólkið hennar virti ekki tímasetningar. Hún skammaðist yfir þurrki. Hún skammaðist yfir því að ekki mætti reykja í Fjöruborðinu þótt gestunum væri slétt sama og færu gjarnan út í góða veðrið og birtuna til að anda að sér nikótíninu. Og hún kvartaði yfir að ég væri ekki nógu skemmtileg.
Þar með var spilið tapað. Þessi ferð verður ekki botnuð. Og starfsmaður ferðaskrifstofunnar sem ég vann fyrir þá helgina stóð ekki með mér, studdi mig í engu og svei mér ef hún naut þess ekki að sjá mér líða illa. Og ekki fannst þeirri ferðaskrifstofu ástæða til að borga allar unnar stundir, ekki heldur símakostnað minn.
Nú ligg ég hér í sófanum mínum á sjötta tímanum á sunnudegi og get mig varla hrært af þreytu eftir viðburðaríka hvatahelgi. En mér líður samt vel, veit að við skiluðum góðri vinnu saman, vorum samhent og þrátt fyrir einstaka skavanka fara farþegarnir heim með fallegar myndir, góðar minningar og eiga eftir að senda hingað fleiri gesti á næstu árum.
Athugasemdir
...og er það ekki týpískt að þú manst betur eftir þessari ferð fimm árum síðar en öllum ferðunum sem hafa heppnast vel.
... kannast við þetta úr kennslunni.
Ásgerður (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 08:58
Nja, ef ég á að vera alveg einlæg verður mér ekkert oft hugsað til þessarar ferðar. Hún vaktist aðallega upp núna eftir þessa helgi með erfiðan hópstjóra sem allir dæstu undan en sjálfsmynd mín er ekki í molum af því að við unnum öll svo vel saman.
Ég er sossum með strengi en mér líður samt vel með mig, mitt framlag og samstarfsfólk.
Berglind Steinsdóttir, 16.6.2008 kl. 18:20
Við vorum náttúrlega allt að því óaðfinnanleg ;)
Ég er búin að skrifa margar setningar um þennan áðurnefnda hópstjóra og þurrka aftur út, því mamma sagði mér alltaf að ég ætti ekki að segja neitt ef ég hefði ekki eitthvað fallegt að segja.......
Þar til næst.
Kv. Örvar
Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 11:52
Döö, hún hefur ekki bannað þér að syngja það ... svona er mamma þín góð kona. Þú manst það næst. Svo vona ég að kamilluteið hafi kikkað inn og þér hafi leyfst að syngja einsönginn.
Berglind Steinsdóttir, 17.6.2008 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.